Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Valtýr og Símon

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Valtýr og Símon

Einu sinni kom maður úr Norðurlandi er Símon er nefndur. Hann hafði meðferðis mikla peninga og er sagt að hann hafi ætlað að Vallanesi. Er svo ekki af honum neitt sagt fyrr en hann fannst í dæld nokkurri eða lág milli Ketilsstaða og Eyjúlfsstaða á Völlum; var hann þá nær því dauður af áverkum er honum höfðu verið veittir, en stolnir af honum allir peningarnir. Er hann þá aðspurður hvur hans sáramaður sé, en svo var af honum dregið að hann gat ekki talað annað en þetta: „Valtýr í grænni treyju, Valtýr í grænni treyju,“ og að svo mæltu dó hann og er lág þessi er hann dó í kölluð Símonarlág.

Nú var þetta mál tekið undir próf af sýslumanni í Múlasýslu og er mælt að þá hafi verið sýslumannssetur á Egilsstöðum á Völlum. Þennan tíma bjó að Eyjúlfsstöðum maður sá er Valtýr hét. Hann var meðal helztu bænda um þær mundir og einstaklega vænn og vandaður maður, Var hann oft vanur að vera á grænni treyju, sem þá var siður margra ríkra manna; því varð það að helzt þóttu líkindi til að hann væri banamaður Símonar, bæði af því að hann bjó svo nálægt því sem maðurinn fannst og líka af því að hann var oft í grænni treyju eins og særði maðurinn lýsti vegandanum, og í þriðja máta var hvurgi þar nálægt, það menn til þekktu, maður með því nafni í þeim búningi. Er nú Valtýr á Eyjúlfsstöðum tekinn fyrir og borið á hann illverk þetta; en þrátt fyrir allar hans undanfærslur og afsakanir var hann hafður út að Egilsstöðum og þar dæmdur sem sekur til lífláts. Var hann fluttur út fyrir túnið á klettana og skyldi þar af takast. Sjá menn þá hvar bakka dregur upp í hafi og færist hann skjótt upp á loft og er Valtýr sér það segir hann: „Þar kemur sá sem hefnir mín.“ Eftir það var hann aflífaður. En úr bakka þessum rauk; gjörði hinn harðasta vetur og almennan fjárfellir yfir Múlasýslur og víðar. Var sá vetur lengi í minni hafður og kallaður Valtýrsvetur.

Eftir því sem sagan segir, þá hefur menn þegar grunað að Valtýr mundi hafa verið saklaus og hinn seki Valtýr þess vegna enn ófundinn; því var tekin önnur hendin af Símon og hengd upp í bæjardyrnar á Egilsstöðum. Lítur svo út sem það hafi verið trú manna í þá daga að ef hengdur væri einhvur limur af þeim er menn héldu dána af mannavöldum og hinn seki gekk undir mundi eitthvurt teikn sjást, og þess vegna hefur það verið siður að gjöra svo þegar menn vóru hræddir um að hið sanna væri ekki komið í ljós.

Nú hangdi hendin af Símon þarna í bæjardyrunum í nítján ár og bar ekkert til tíðinda; en á tuttugasta ári kemur að Egilsstöðum ókenndur maður úr Norðurlandi, er Valtýr hét. Honum var boðið inn, en þegar hann gekk inn bæjardyrnar duttu þrír blóðdropar úr hendinni og ofan í höfuðið á Valtýr. Hann undrast þetta mikillega og aðrir ekki síður. Spyr hann þá af hverjum þessi hendi sé. Er honum sagt það. Þegar Valtýr heyrir þetta sýnist mönnum honum bregða undarlega við. Er hann þegar tekinn og krafinn til sagna. Meðkenndist hann þá að hafa elt Símon norðan úr landi og setið um hann af því hann hafði peninga meðferðis, en sér hefði ekki gefizt færi á honum fyrr en þarna sem áður er nefnt, og var það því satt er Símon sagði að banamaður hans var „Valtýr í grænni treyju“, þó það sanna gæti ekki komið fyrir í það sinn og saklaus yrði að gjalda. Nú er ekki að orðlengja að Valtýr var dæmdur til dauða og hengdur síðan á ás einum fyrir ofan Egilsstaði sem nú er kallaður Gálgaás, og endar svo þessa sögu.