Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Valtýsvetur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Valtýsvetur

Eitt sinn var póstur á ferðum sínum er hét Valtýr; honum mætti þá maður á alfaravegi klæddur grænni treyju og kvaðst heita Valtýr; hann biður póstinn að láta sér eftir töskuna hvar í peningar voru miklir auk annara pósteyrinda. Póstur vill það með engu móti. Þá ræðst hinn á póstinn og veitir honum banatildrög og fer svo með töskuna. Skömmu síðar mætir honum maður er fór sama veg til baka sem hinn fór fram. Þessi Valtýr biður manninn að hafa við sig yfirfataskipti og segir að treyja sín sé sér þröng og lýi sig. Manninum leizt vel á grænu treyjuna og lætur yfirhöfn sína fyrir hana, klæðir sig í hana og skilur við Valtýr og fer sinn veg þar til hann kemur þangað er myrti pósturinn var með litlu lífsmarki. Maðurinn fer að skoða hann, en getur ekki fengið orð af honum nema honum virðist hann nefna Valtýr í grænu treyjunni. Þegar hann er búinn að hagræða þeim dána eftir hentugheitum skilur maðurinn við hann og fer leið sína.

Nú koma þar aðrir menn, finna líkið og sjá til manns er við það skildi, elta hann og taka fastan. Hann fer að afsaka sig og segir allt sem hann vissi, en það dugir ekki til að frelsa líf hans, og var því tekinn af lífi. En meðan verið var [að] því segir sagan að ský hafi dregizt upp á vesturloft líkt melju eða reiðingstorfu í lagi, sem dreifðist yfir mikinn part loftsins og fór að drífa úr sér snjókyngjum með strangast veðurátt so að fénaður strádó, en fólk komst í mesta volæði, helzt þar í nálægum sveitum, sem átti að hafa varað í þrjú ár. Af þessu féll mönnum inn sá þanki að þessi óhagsæld mundi vera afleiðing af aftöku mannsins. Var því það ráð tekið að grafa hann upp, taka höfuðskel hans og hengja upp yfir kirkjudyr að vita hvort ekkert teikn gæfist. Loksins sást að þrír blóðdropar duttu úr höfuðskelinni á einn mann er í kirkjuna fór. Var [það] tekið til greina og hann krafður til skírslu. Þetta var þá Valtýr sá er myrti póstinn og seldi manninum grænu treyjuna.