Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Vegurinn austan undir Tindastól

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Vegurinn austan undir Tindastól

Vestanvert við Skagafjörð er stórt fjall og afar hátt; það heitir Tindastóll, en að fornu Eilífsfjall. Gengur það allt í sjó fram og skilur Laxárdal hinn ytra og Reykjaströnd. Fyrrum voru ferðir alltíðar milli sveita þessara og fóru menn þá jafnan með sjó fram, því það hefur verið skemmstur vegur sem sjá má af afstöðu fyrrnefndra byggðarlaga, en undirlendi eða fjörumál var þá alstaðar nokkurt undir Stólnum. Að vísu hafa þá verið til fleiri leiðir sem enn eru tíðkaðar og liggur ein þeirra út Laxárdalsheiði.

Einhverju sinni bar svo við að hval rak á Reykjafjöru,[1] norðan undir Tindastól; var þá gerður mannsöfnuður á Reykjaströnd til hvalskurðar. Þegar Laxdælir fréttu hvalrekann og skurðinn gjörðu þeir og mannsöfnuð og gekkst mest fyrir því presturinn í Hvammi og djákninn fyrir því þeir vildu eigna Hvammskirkju allan reka á því sviði og fóru á fund Reykstrendinga er voru að hvalskurðinum. Slóst þar í illdeilur með þeim er hvorir tveggja þóttust eiga hvalinn, en hvorugir vildu vægja fyrir hinum. Þó kom svo fyrir umtölur góðgjarnra manna að Laxdælir skyldu mega sanna með eiði ef þeir treystust að þeir ætti land það er hvalurinn var á rekinn og skyldu þá Reykstrendir ekkert af honum hafa. Gengu Laxdælir svo að hvalnum og unnu eiða að því að sú jörð er þeir stæðu á væri Hvammskirkju eign á Laxárdal; enda var svo að jörð sú er var í skóm þeirra var Hvammskirkju eign, en sú jörð er var ‘’undir’’ skóm þeirra var eign Reykja á Reykjaströnd; því þeir höfðu rist grassvörð fyrir íleppa í skó sína í Hvammskirkju landi, aðrir segja í kirkjugarðinum í Hvammi, áður þeir fóru norðan.

Þegar þeir höfðu unnið eiðinn létu Reykstrendir rekann af hendi og fóru heim síðan, því þeir hugðu allt falslaust af hinna hendi, en Laxdælir tóku til skurðar. En er þeir höfðu skamma stund skorið hvalinn féll skriða úr Stólnum yfir þá og hvalinn svo þeir týndust þar allir nema drengur einn sem ekki hafði unnið eiðinn; hann komst aðeins undan að flytja Laxdælum tíðindin sem gerzt höfðu í för hans.[2] En skriðan huldi ekki einungis hvalinn og mennina, heldur tók hún gjörsamlega af veginn er verið hafði allt til þess norðan undir Tindastól; sú skriða heitir síðan Hvalurð. Það er sögn manna að hvítklæddur maður hafi sézt uppi á fjallinu áður en skriðan losnaði, hafi hann átt að hafa sprota í hendi og lostið honum á fjallið þar sem skriðan tók sig upp.

  1. Aðrir segja á Sævarlandsjöru og að deilan hafi verið einungis milli prestsins í Hvammi og bóndans á Sævarlandi eða Reykjum.
  2. Í sögu þeirri sem Páll prestur Jónsson í Hvammi hefur skrásett „eftir gömlum manni á Skaga“ segir að djákninn hafi komizt undan í það sinn og farið heimleiðis inn Reykjaströnd og út Laxárdalsheiði, en farizt í polli nokkrum mjög djúpum nálægt miðja vega milli Hvamms og Skíðastaða; þar heitir síðan Djáknapollur.