Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Konan sem fór í svartaskólann

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Konan sem fór í svartaskólann

Það voru einu sinni hjón á bæ. Þess er ekki getið að þau hefðu fólk nema einn vinnumann. Þegar fram liðu stundir fór konan að taka það upp að sofa öllum dögum. Þetta þókti þeim bónda og vinnumanni undarlegt því þeir vissu nú ekki annað en að hún svæfi á nóttinni líka. Nú hugsaði vinnumaður með sér að hann skyldi reyna að vaka komandi nótt og vita þá hvört hún svæfi.

Um kvöldið hátta nú allir eins og vant er, en vinnumaður sofnar ekki. Hann snýr sér nú fram og gætir vel að konunni, en þegar hún heldur nú að þeir séu sofnaðir þá rís hún upp aftur og klæðir sig, tekur síðan glas með einhvörju í og dreypir á bónda og fer svo fram.

Vinnumaður rís nú upp og læðist á eftir konunni. Þegar hún kemur fram í bæjardyrnar þá tekur hún þar svarta vettlinga og lætur upp á sig, gengur svo út á hlaðið, baðar upp höndunum og segir: „Upp og fram, en hvörgi niður,“ og þá strax hefst hún á loft í krafti þessara orða.

„Upp og fram, en hvörgi niður,“ segir vinnumaður og með það fer hann upp líka.

Svo líða þau yfir land og sjó þangað til þau koma á eitt landspláss. Eftir það gengu þau stundarkorn þar til þau komu að dálitlu húsi; þar gekk konan inn og vinnumaður á eftir. Síðan settist hún niður við borð sem þar var. Vinnumaður settist þar líka niður utar við. Á borðinu logaði dálítil ljóstíra.

Nú leið ekki langur tími þangað til að grá loppa kemur upp á borðið með steinspjöld og stíli. Þau taka við sínu spjaldinu hvört eins og hinir fleiri sem þar sátu allt í kring við borðið. Nú fóru allir að klóra eitthvað hvör á sitt spjald, en vinnumaður skrifaði Jesú nafn á spjaldið sitt.

Undir daginn leggja nú allir spjöldin á borðið og loppan sama kemur og tekur þau öll nema spjald vinnumanns, það lá eftir á borðinu.

Nú stendur konan upp og gengur út. Vinnumaður fer á eftir henni. Þegar hún kemur út þá setur hún nú upp vettlinga sína eins og fyrr og segir: „Upp og fram, en hvörgi niður.“

Í krafti þessara orða -: „Upp og fram, en hvörgi niður,“ segir vinnumaður - þá hefjast þau á loft og líða yfir sjó og land þangað til þau koma heim á hlaðið; þar tekur hún af sér vettlinga sína, skilur þá eftir þar einhvörstaðar í bæjardyrunum og gengur svo inn.

Um daginn segir vinnumaður bónda frá þessu öllu saman og segir hann skuli bera sig að sofna nú ekki í kvöld, en muna sig um það að láta sín ekki við geta.

Um kvöldið leggur bóndi sig til svefns eins og hann var vanur og lætur sem hann sofni. Þegar hún heldur að þeir séu nú sofnaðir þá fer hún að örla sér; þá læzt bóndi vakna og spyr hvað þetta hafi að þýða, hvað hún ætli. Konan verður nú eins og hálfsneypt og svarar öngvu.

Ja, bóndi segir að það sé ekki sem hún haldi, að hann viti ekki um ferðalag hennar, jú, hann viti það vel og megi hún leggja slíkt háttalag niður, annars skuli hún fá að mæta töluverðu misjöfnu. Eftir þetta lét konan af þessu og hagaði sér almennilega.