Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Öskudagur

Úr Wikiheimild

Öskudagurinn er fyrsti miðvikudagur í föstu. Hann hefur verið haldinn á annan hátt á Íslandi eftir siðabótina en pápiskir halda hann sem setjast þá í sekk og ösku. Íslendingar hafa haldið upp minningu hans með glensi og gamni síðan með því kvenfólk hefur hengt á karlmenn smápoka með ösku í eða komið henni á þá öðruvísi; það heita öskupokar. En karlmenn hefna sín með því aftur á kvenfólkinu að þeir koma á þær smásteinum ýmist í pokum eða á annan hátt. Oft hefur orðið þrætni úr því hvort það ætti að metast gilt ef karl eða kona bæri ösku eða stein öðruvísi en í poka sem kræktur væri á með títuprjóni svo hitt vissi ekki af og eins úr því hversu langt skuli ganga með öskuna eða steininn til þess að burðurinn sé lögmætur, því þeim sem koma ösku eða steini á aðra þykir nægja ef gengið er með hvort um sig þrjú fet, en hinir sem bera kalla það ómark ef skemmra er gengið en yfir þrjá þröskulda. Um þetta eru enn mjög deildar meiningar.