Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Þófarabiti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þófarabiti

Þar sem tóvinna er mikil til sveita og unnar bæði voðir og prjónles þarf oft á því að halda að þæft sé. Ef lítið er þæft í einu, til dæmis vettlingar eða sokkar, er það þæft milli handanna; ef það er nokkru stærra en svo að því verði komið milli handanna er þæft annaðhvert í trogi eða undir bringunni.[1] Sé það enn stærri voð sem þæfa á er hún þæfð undir fótunum og sú aðferð er algengust á Norðurlandi og gerir allt þetta einn maður eða kona ef ekki er mjög stór voðin. En á Suðurlandi er oftar þæft í tunnu og gera það ekki færri en tveir. Sá sem þæfir heitir þófari og fær hann eða þeir ef tveir eru ævinlega einhvern glaðning auk matar síns fyrir þófið; sá glaðningur heitir þófarabiti. Þenna formála skal þófari iðulega hafa yfir í hálfum hljóðum á meðan hann er að þæfa svo að honum gangi þófið:

„Bárður minn á Jökli,[2]
leggstu á þófið mitt.
Ég skal gefa þér lóna
[og íleppana[3] í skóna,
vettling á klóna,
þegar ég kann að prjóna,
naglabrot í bátinn þinn,
hálfskeifu undir hestinn þinn,
mórautt lamb og gimburskel,
og meira, ef þú þæfir vel.“
  1. Bringuþóf held ég sé að mestu af lagt.
  2. Það er sjálfsagt Bárður Snæfellsás.
  3. Frá [ hafa aðrir: „innan“.