Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Þófarabiti
Þófarabiti
Þar sem tóvinna er mikil til sveita og unnar bæði voðir og prjónles þarf oft á því að halda að þæft sé. Ef lítið er þæft í einu, til dæmis vettlingar eða sokkar, er það þæft milli handanna; ef það er nokkru stærra en svo að því verði komið milli handanna er þæft annaðhvert í trogi eða undir bringunni.[1] Sé það enn stærri voð sem þæfa á er hún þæfð undir fótunum og sú aðferð er algengust á Norðurlandi og gerir allt þetta einn maður eða kona ef ekki er mjög stór voðin. En á Suðurlandi er oftar þæft í tunnu og gera það ekki færri en tveir. Sá sem þæfir heitir þófari og fær hann eða þeir ef tveir eru ævinlega einhvern glaðning auk matar síns fyrir þófið; sá glaðningur heitir þófarabiti. Þenna formála skal þófari iðulega hafa yfir í hálfum hljóðum á meðan hann er að þæfa svo að honum gangi þófið:
- „Bárður minn á Jökli,[2]
- leggstu á þófið mitt.
- Ég skal gefa þér lóna
- [og íleppana[3] í skóna,
- vettling á klóna,
- þegar ég kann að prjóna,
- naglabrot í bátinn þinn,
- hálfskeifu undir hestinn þinn,
- mórautt lamb og gimburskel,
- og meira, ef þú þæfir vel.“
- ↑ Bringuþóf held ég sé að mestu af lagt.
- ↑ Það er sjálfsagt Bárður Snæfellsás.
- ↑ Frá [ hafa aðrir: „innan“.