Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Þorláksmessa á sumar
Þorláksmessa á sumar
Þorláksmessa á sumar var haldin í Skálholti með mikilli viðhöfn allt fram um siðaskiptin og þótti einhver merkasta hátíð á árinu. Safnaðist þá saman mikill mannfjöldi úr ýmsum áttum að staðnum með hjátrú og áheitum. Mest var þá viðhaft þegar Þorláksskrín sem var ágætlega prýtt og geymdur í helgur dómur (bein) Þorláks biskups í Skálholtskirkju var borið út og í kringum kirkjuna og kirkjugarðinn í helgigöngu, með hringingum, logandi vaxljósum, kertum og öðrum ceremoníum. Biskupinn og kennilýður allur skrýddist þá hinum bezta messuskrúða og gengu á undan og þar á eftir allur mannfjöldinn með söngvum og talnalestrum, og kepptist hver við annan að fá að bera skrínið; það kölluðu þeir að „styðja Þorláks hönd“. Þeir sem náðu að bera skrínið eða að ganga undir það töldu sig þess sælasta og kvitta allra sinna synda. Þegar processíunni var lokið hélt Skálholtsbiskup öllum veglegustu veizlu. Við þetta gáfust til staðarins stór fé í heitgáfum og offrum.
Það þótti hin mesta nauðsyn að biskup væri jafnan heima í Skálholti á Þorláksmessu og fremdi alla biskupsþjónustu þann dag; var hann því svo gott sem lögskyldur til að ríða ekki að heiman í vísitazíu fyrr en Þorláksmessa var liðin sem nú er sett 20. júlí í almanökum í minning þess að þá var upp tekinn helgur dómur Þorláks biskups úr jörðu 1198, en messan lögtekin ári síðar. Þegar Gissur biskup Einarsson kom til stóls í Skálholti afnam hann þetta helgihald, bannaði mönnum að koma þar saman í því skyni, lét þá ekki ná til skrínisins og geymdi það á afviknum stað í kirkjunni.[1]
- ↑ Ég hef ánægjanlega vissu fyrir því að Þorláksskrín var selt á uppboðsþingi (í Skálholti) 1802 og um leið „krossmarkið stóra og Maríubrík“.