Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Þorri, góa, einmánuður og harpa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorri, góa, einmánuður og harpa

Næsti mánuður eftir miðjan vetur heitir enn sem kunnugt er þorri, næsti mánuður eftir hann góa, seinasti vetrarmánuðurinn einmánuður og fyrsti sumarmánuðurinn harpa. Fornsögur segja frá því hvernig tveir fyrstnefndu mánuðirnir fengu nöfn sín, en ekki er mér kunnugt af hverju einmánuður og harpa dragi nafn. Reyndar hefur dálítið boðorðaslangur komizt á munnmælin því þau gera þorra og góu að hjónum þar sem þau eru talin feðgin í fornum sögum; er þorri húsbóndinn, en góa húsfreyjan; þeirra börn eru þau einmánuður og harpa. Þess vegna var það skylda bænda „að fagna þorra“ eða „bjóða honum í garð“ með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veizlu fyrsta þorradag; þetta hét „að fagna þorra“. Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“; á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“.

Húsfreyjur áttu að fagna góu á líkan hátt og bændur fögnuðu þorra, fara fyrstar manna á fætur fáklæddar góumorguninn fyrsta, ganga þrisvar í kringum bæinn og bjóða góu í garða svo mælandi:

„Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu inn í bæinn;
vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.“

Fyrsta góudag áttu og húsfreyjur að halda grannkonum sínum heimboð. Yngismenn áttu að fagna einmánuði og yngismeyjar hörpu á sama hátt og húsbændur og húsfreyjur fögnuðu þorra og góu. Það er varla efamál að þessi venja, að fagna þorra, góu, einmánuði og hörpu, hefur verið eftirleifar hins forna þorrablóts, góublóts, einmánaðarblóts og sumarmálablóts, þó lítið sé nú orðið um þenna fagnað víðast hvar.