Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Að draga stein úr sjó

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er trú manna í Grímsey að það sé feigs manns dráttur ef fyrsti dráttur manns í róðri verði steinn. Til að fyrirbyggja feigleik sinn á maður að flytja steininn til lands. – Sumarið 1837 var í Grímsey maður sá sem Jóhannes hét. Dró hann í einum róðri stein fyrstan drátta, sendi honum út og sagði hann skyldi fara svo sem hann kvað á. Eftir þetta atvik fóru menn að verða hræddir um að Jóhannes mundi vera skammlífur. Þetta varð líka orð og að sönnu, því að sama sumarið fórst hann þar í björgunum.

Eg[1] sá einu sinni í Grímsey sjódreginn stein. Hann var rhemboid-lagaður (eins og dobbelt kalkspat), hvítleitur og mig minnir með bleikleitum flekkjum.


  1. Þ. e. sr. Jón Norðmann.