Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Fyrirboðar
Fyrirboðar
Í þriðja lagi eru enn nokkrir fyrirburðir sem mætti kalla fyrirboða þó bæði orðin séu jafnast höfð í sömu merkingu. Þessir fyrirburðir boða hvorki gott né illt svo maður geti sagt eða þá hvort tveggja jafnframt eftir því sem í kreddunni liggur. Þeir eru eins og hitt sem áður er talið teknir af ýmsum hlutum í náttúrunni og af manni sjálfum, en eru manni þó öldungis ósjálfráðir. Hér eru þá nokkrir slíkir fyrirboðar.
Ef íleppur gengst upp úr skó manns að utanverðu þykist þjónustan manni of góð, en gangist íleppurinn upp úr skónum innanfótar þykist maðurinn henni of góður. Aðrir segja að þá þykist konan manni of góð.
Ef stóra tá og næsta tá við hana eru jafnlangar þá eignast maður eða kona jafnræði sitt, en sé næsta tá lengri tekur maður upp fyrir sig, en sé hún minni tekur maður niður fyrir sig.
Ef mann klæjar vinstri augabrúnina gengur manni eitthvað í vil, en á móti ef mann klæjar hina hægri, en sumir segja þvert á móti.
Ef mann klæjar augun er það fyrir gráti.
Ef mann klæjar nefið veit það á að maður reiðist innan skamms.
Ef mann klæjar hlustina innan er það kallað að mann bori í eyrun og er fyrir tíðindum.
Ef mann hitar í hægri kinn er illa talað um mann, en vel ef mann hitar í hina vinstri. Hin vinstri er vinakinn.
Ef mann klæjar munninn á maður að smakka nýnæmi.
Ef konu klæjar greipar verður hún bráðum sótt til að sitja yfir.
Ef maður hikstar er maður þar á orði sem maður er ekki að borði.
Ef mannshár er mjúkt átaks, grannt og linlegt er það vottur þess að maðurinn sé geðgóður, en gagnstætt háralag boðar gagnstætt lundarlag.
Ef maður eða kona eru hársár veit það á að hann verði hræddur um konu sína, en hún um mann sinn.
Ef mann kitlar í iljum verður maður hræddur um konu sína.
Þegar mann eða mey hættir að kitla eru þau ekki lengur hreinn sveinn eða hrein mey. (Sbr.: „Þú ert búinn að taka af þér kitlurnar.“)
Ef einn lætur húfu á annan og fari hún svo vel að hinn þurfi ekki að hagræða henni á eftir á sá sem lét húfuna á hinn að ráða giftingu hans.
Ef kona eða stúlka slær sandi á fætur ókvæntum manni kvongast hann ekki það ár til jafnlengdar. Aðrir segja að þá ráði sú kona ráðahag mannsins.
Ef barn fæðist með tönnum (tveimur) verður því bæði fljótt til máls og skáld. Þær tennur heita skáldagemlur.
Ef börn taka snemma tennur verða þau skammlíf, en langlíf ef þau fá seint tennur.
Ef maður nær með tungunni upp í nefið á sér er það víst að vænta að sá hinn sami er skáld; sbr. þátt af Þorleifi jarlaskáld er hann togar tunguna á Hallbirni hala og gerir hann svo skáld.
Ef maður þolir vel þröngan skó þolir hann síðar vel konuríki og eins gagnstætt.
Ef mann klæjar iljarnar á maður að stíga í feigs manns för.
Ef elzti maður á heimili hnerrar meðan farið er með matföng á einhver svangur að koma og borða af þeim mat. Það er kallað að hnerra öðrum gest; en hnerri yngsti maður hnerrar hann meiri mat í húsið.
Ef manni svelgist á meðan maður er að borða eða drekka langar einhvern sem nærstaddur er í það sem borðað er. Aðrir segja að þá komi einhver svangur. Þegar einhverjum svelgist á er kallað að „sæki í hálsinn á honum“ og sagt: „Njóttu betur en niður gengur.“
Ef saumakona stingur sig á nál meðan hún er að sauma fat á einhver að fá ást á þeim sem fatið á fyrr en það er slitið.
Ef lús skríður á nýju fati manns eða meyjar meðan það er í saumum eða meðan verið er að prjóna það á sá að eignast barn sem fatið á áður en fatið er fullslitið.
Ef hrækt er á föt manns á manni að gefast nýtt fat aftur af þeim sem hrækti, en hræki maður á sig sjálfur á að verða logið upp á mann.
Ef maður kemur inn aftur á bæ eða í hús þar sem maður er búinn að kveðja á maður að eiga þangað afturkvæmt í annað sinn, eins ef maður skilur eitthvað eftir, hvort maður kemur í það sinn eða ekki.
Ef maður leggur í ógáti af sér hrífu á sumardag svo að tindarnir snúi upp veit það á regn og er kallað að „hrífan spái regni“ eða „kalli ofan regn“.
Þegar maður finnur hreiður í fyrsta sinni á ævi sinni skal hafa tölu á eggjunum og ekki brjóta neitt þeirra; því svo mörg börn á maður að eiga sem eggin eru mörg og svo mörg að missa sem maður brýtur mörg eggin. En ef fúlegg eru á maður að eiga jafnmörg lausaleiksbörn.
Ef maður geispar í rúmi sínu á þeim bæ sem maður er nýkominn að, áður en maður sofnar, verður maður þar ekki lengi.
Ef tveir þvo sér úr sama vatni rífast þeir áður langt um líður. Aðrir segja að börn þeirra eigi að verða lík.
Kallað er að köttur setji upp gestaspjót þegar hann sleikir sig eða þvær sér liggjandi svo að önnur framlöppin, aðrir segja afturlöppin, stendur upp í loftið og boðar það gestakomu.
Melflugur heita gestaflugur þegar þær fljúga oft um hús manna og híbýli; er þá jafnan gesta von.
Menn kalla að hundur bjóði gestum ef hann liggur fram á lappir sínar og snýr hausnum móti dyrum. Ef hann leggur hausinn ofan á hægri löppina á einhver meiri maður að koma, en snúi hundur rassi að dyrum, en horfir þó til dyra og liggur í kring þá kemur einhver ófrómur. Aðrir segja að hundurinn bjóði frómum ef hann leggur trýnið beint fram á lappirnar, en ófrómum ef trýnið stendur út af öðru hvorumegin.
Ef hnífur eða skæri eða önnur tól sem oddur er á dettur úr hendi manns og standi á oddinn í gólfinu veit það á að einhver komi kjöftugur. Aðrir segja að þá sé maður ekki feigur.
Ef lykt finnst í húsum áþekk súrsmérslykt er hún ýmist kölluð fylgjulykt eða lokalykt; þegar hún er kölluð fylgjulykt er gesta von því það er lyktin af fylgju þess sem kemur þó maður sjái ekki fylgjuna sjálfa; en þeir sem kalla hana lokalykt segja að óhreinn andi sé í nánd eða að eiturormur liggi þar ofarlega í jörðu sem hún finnst; hvort heldur sem er er ætíð varlegra að skyrpa í allar áttir því sú lykt er af illum toga spunnin.
Ef maður dettur þegar maður fer að heiman boðar það heill, en óheill ef maður dettur á leiðinni heim; því „fall er farar heill frá bæ, en ekki að“.
Ef hundar gelta ekki að komumanni þá er hann ófrómur.
Sagt er að sá sem fæddur er á sunnudegi sé fæddur til sigurs, á mánudag til mæðu, á þriðjudag til þrifa (þrautar), á miðvikudag til moldar, á fimmtudag til frama, á föstudag til fjár, á laugardag til lukku. Ekki er trútt um að menn hafi ekki haft hliðsjón af þessari kreddu þegar eitthvert fyrirtæki hefur verið byrjað.
Ef þrjár arnir fljúga hver á eftir annari er það fyrir stórtíðindum.
Ef hár manns logar þá er maður ekki feigur, en feigur ef það sviðnar.
Ef kona setur upp karlmannshatt er það merki um að henni lízt vel á manninn.