Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Góðsvitar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Góðsvitar

Þessu næst eru aðrir fyrirburðir sem boða mönnum eitthvað gott, heill eða höpp, og eiga að hlotnast hverjum einum án alls tilverknaðar. Skoðun manna á uppruna þessara fyrirburða sem kallaðir eru góðsvitar hefur að öllu leyti verið hin sama sem á illsvitunum. Hér eru nú fáeinir góðsvitar.

Ef ókvæntur maður er góður við ketti boðar það að hann verði á síðan góður við konu sína.

Ef maður hefur vörtu svo hvorki hylji hár né klæði né maður sjái hana sjálfur þá er það auðsmerki.

Ef maður er neðarlega hærður á hálsinum verður hann auðmaður.

Mikil undirhár eru auðsmerki.

Ef maður sker sig á fingri meðan hann er að borða á manni að gefast nýr matur.

Ef hnútur hleypur á sokkaband manns heitir hann lukkuhnútur og á manni þá að gefast eitthvað (sumir segja þann dag), en ekki skal leysa hnútinn fyrr en eftir þrjá daga.

Ef skór manns nýr er aukinn, á manni að gefast eitthvað áður en skórinn er slitinn.

Ef maður hnerrar í rúmi sínu á sunnudagsmorgni á manni að gefast eitthvað þá viku.

Betra en ekki er að hnerra á mánudagsmorgni; því svo sagði tröllkonan: „Betri er mánudagshnerri en móðurkoss,“ og má ætla á það, því eins og tröll eru trúlynd eins eru þau sannorð.

Ef maður hnerrar á nýjársmorgun í rúmi sínu þá lifir maður það ár.

Ef maður kemur á bæ meðan verið er að borða er sá hinn sami ekki feigur.

Ef maður finnur ryðjárn milli krossmessu og fardaga á manni að gefast eitthvað úr kaupstað það sumar.

Ef maður er saursæll verður maður auðsæll.

Ef mann klæjar hökuna á hann að smakka nýnæmi.

Ef mann klæjar lófana á manni að bætast eitthvað. Ef mann klæjar hægra lófann á maður að láta úti, en taka inn ef mann klæjar vinstri lófann.

Ef hnútur rennur á vindingar (tengsli) þær sem sjómenn hafa í skinnklæðum sínum eða ef lykkja hleypur á færi þeirra heitir hún fiskilykkja og boðar það stórhöpp. Þegar happið er fengið skal leysa hnútana eða lykkjuna. Af því þegar slíkir hnútar eða lykkjur renna á er komið orðtækið: „Þar hljóp á snærið fyrir þér.“

Ef karlmaður finnur ryðgaða skeifu á hann vís jafn-mörg hundruð til hlutar næstu vertíð sem hann rær eftir, sem götin eru á skeifunni og hundrað fyrir hvern nagla.

Ef maður hnerrar í net sín meðan hann ríður þau eða bætir verða þau fiskin.

Losni karlmanni skóþvengur er hann kominn að giftingu.

Til giftingar vilja menn helzt gott veður, en þó þykir það meir bæta en spilla ef hæg dögg eða hjúfurskúrir koma upp úr hjónavígslu því það boðar frjóvsemi og búsæld og samlyndi hjóna; en stórrigning og steypihvolfur þykja ofviða.