Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Gamlir tyllidagar

Úr Wikiheimild

Sprengikvöld. Þá var skammtað svo mikið hangiket að mönnum lá við spreng, því hver maður átti að ljúka sínu keti, en gæti hann það ekki voru leifarnar hengdar upp í baðstofunni rétt framan í augunum á honum og voru látnar hanga þar alla föstuna til páska, honum til skapraunar. Sá hann það alltaf og fann að því lyktina. En ekki mátti hann – heldur en aðrir – bragða ket alla föstuna.

Að sitja í föstunni. Löngu eftir það farið var að éta ket á föstunni og víst allt til skamms var það sumra siður „að sitja í föstunni“, sem var í því innifalið að frá því á sprengikvöld til þess á páskadag mátti aldrei nefna „ket“ né „flot“, heldur „klauflax“ og „afrás“. Ekki mátti þá heldur nefna „ketil“, „að fara á flot“ eða annað því um líkt. Að bregða hér út af þókti ærið glappaskot. (Móðir mín[1] sagðist oft hafa setið í föstunni í ungdæmi sínu, en þó var það þá mest gert að gamni sínu).

Maríumessa 25. marz. Maríumessa var í Grímsey víst allt að hér um bil 1848 – og er máske enn – með allri alúð helg haldin, þar hún var talin „móðir allra hátíða“.

Mikaelsmessa var í Grímsey gangnadagur. Þá var þar líka góður glaðningsdagur og ekki róið á sjó né unnin önnur landvinna.

Í Fljótum og víst víðar var það venja að smalinn fengi að eiga alla sauðamjólkina á Mikaelsmessu, en mjaltakonan á allraheilagramessu.

Allra heilagra messa. Um hana finn eg ekkert skrifað í blöðum mínum, en ég ætla þó að ég muni fullvíst það er nú skal greina: Það var í Grímsey siður að halda allraheilagramessuna helga svo að hvorki var unnin landvinna né róið á sjó þó logn væri. Bar ekki út af þessu fyrri en árið 1848. Þá var á allraheilagramessu logn og góðviður (+ 1° á Celsius). Þá reri Jón á Eiðum á fisk, og þókti það mikil nýjung. – Mér var sagt það í Grímsey að það hefði allténd verið venja þar að hjón væru gefin saman á allraheilagramessu, það er að segja þegar einhver hjónaefni voru til; annars er auðskilið það gat ekki látið sig gera. Haustið 1848 stóð nú til í eyjunni að hjón giftist á allraheilagramessu, en einhverjar heimiliskringumstæður þeirra ollu því að þetta komst ekki á fyrr en daginn eftir. Þetta þókti og mikil nýjung.

Sumardagur fyrsti er alstaðar eða víðast hvar í Norðurlandi mikil hátíð; þá eru gefnar sumargjafir. Sá sem snemma vaknar og fer á fætur á sumardagsmorguninn fyrsta, hann verður árvakur allt sumarið. Sá sem þá vaknar seint, hann verður allt sumarið niðurdreginn á morgnana.

Völuspá. „Upp upp kryppa á völu minni. – Segðu mér það spákona er eg spyr þig að. – Ég skal með gullinu gleðja þig – silfrinu seðja þig, – gefa þér kóngsson og allt hans ríki ef þú segir satt, – en brenna þig upp á björtu báli ef þú lýgur.“ Svo kemur spurningin, t. d. verður gott veður á morgun, eða verða skipin komin um sumarmál, eða þá eitthvað sem maður vill spyrja um – mutatis mutandis.[2] Nú er völunni kastað (svo hún velti?); snúi kryppan og hornin upp, þýðir það já, en snúi valan upp í loft, merkir það nei.

  1. Þ. e. sr. Jóns Norðmanns, Margrét Jónsdóttir.
  2. „Að breyttu breytanda.“