Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Glaðningar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Glaðningar

Hér hnýti ég nú aftan í nokkrum einstökum glaðningum sem húsbændur veita hjúum sínum fyrir vel aflokin störf og „goldnir eru í bitum og sopum“ sem kallað er. Þessir glaðningar eru ekki bundnir við neinn ákveðinn dag, en fylgja þó vissum tímum og verkum hvenær sem því er aflokið.

Þrír þeirra fylgja slættinum. Sá fyrsti af þeim er í því fólginn að þegar búið er „að losa bæinn úr grasinu“, þ. e. búið að slá alstaðar í kringum bæinn á sumrin, þá á húsfreyja að færa þeim sem það gerir heilt rjómatrog með skyri niðrí út í slægjuna í aukagetu fyrir þetta viðvik. Þessi aukageta heitir og „rjómatrog“. Annar glaðningurinn eru töðugjöldin sem húsbændur veita hjúum sínum í minningu þess að búið er að alhirða töðu af túnum á sumrin nær sem það er, ýmist sama daginn sem túnin eru hirt eða næsta sunnudagsmorgun þar á eftir. Þessi glaðningur er eins konar umbun handa hjúunum fyrir aðstoð þeirra og atorku við vallarsláttinn og er víðast hvar í því fólginn að gerður er hnausþykkur grjónagrautur og gefinn öllum heimamönnum með sméri út í eða sírópsmjólk út á sem sumum þykir enn meira hnossgæti. Grauturinn heitir „töðugjaldagrautur“. Sumir hafa þó hangið ket til töðugjaldanna. Töðugjöld eru enn almenn hér á landi. Þá er hinn þriðji glaðningur og heitir hann slægjur. Svo stendur á þeim að þegar bóndinn er búinn að ná inn öllu heyi sínu á haustin eða alhirða útengi og er hættur við slátt það sumar sker hann kind heldur væna, en þó fer það eftir því hvað margt fólk hann heldur því sumstaðar nægir til þess lamb og því er kallað „slægnalamb“, þar sem sumstaðar veitir ekki af tveim kindum vænum;[1] lætur hann svo sjóða kindina upp úr skinni, en þó er það sumstaðar siður að hvorki er til þess hafður innmatur né svið sem er þá nýtt og neytt seinna, og skammta ketið öllu fólkinu í minningu þess að slættinum er aflokið. Slægjur held ég hafi verið miklu tíðari á Suðurlandi en Norðurlandi og víst er um það að þær eru hvergi nærri orðnar eins almennar nú og töðugjöldin, en ná þó til allra heimamanna þar sem þær tíðkast á annað borð.

Ýmislegt er það fleira sem tína mætti til um sláttinn ekki ómerkilegt. Það er til dæmis haft eftir tröllkonu einni, minnir mig, að hún hafi sagt: „Líttu ekki á ljá þína langa, en láttu langhalann (hrífuna?) ganga,“ og: „Seint gengur á hólmalausan völl og oddalausa gæru.“ Við þenna sannleika kannast bændur fyllilega og því gera þeir það sumir sem ekki mæla hverjum sláttumanni út völl sér að setja þá í einlæga hólma til að láta þá reyna sig. En fari svo að sláttumaður eigi nokkuð eftir óslegið af hólmanum þegar hann fer heim að sofa „verður hann hólmaskítur“. Ef alhirt er, hvort heldur er á túni eða engjum, svo ekkert strá sé eftir úti óhirt eða með öðrum orðum ef „hirt er að orfum“ er það kallað að „Loki skíti í teiginn“.[2]


  1. Heyrt hef ég að Magnús konferenzráð Stephensen í Viðey hafi jafnan látið skera tvær vænar kindur í slægjurnar.
  2. [Jón Borgfirðingur segir: „Ef sláttumaður verður hólmaskítur á að sk... í hólmann og setja orfið hans á endann ofan í. Engladreif heitir seinasta rakið á haustin þegar hirt er og á að skilja það eftir (sumir hálft), annars fer bóndinn dauður eða lifandi burt fra jörðinni á næsta vori.“]