Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Kvöldskattur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kvöldskattur

Það er enn siður sumstaðar fyrir norðan (í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum að minnsta kosti) að húsbændur veita hjúum sínum eitt kvöld ótiltekið öndverðlega á jólaföstunni svo mikið sælgæti í mat sem þeir eiga fjölbreyttast og bezt til á heimilinu, og ber öllum saman sem það þekkja að það sé mesta kethátíð[1] á árinu, og keppast jafnvel öreigar við að veita hjúum sínum þenna kvöldskatt og kljúfa til þess þrítugan hamarinn hvað litla björg sem þeir eiga í húsum sínum.[2] Fyrrmeir var það og sumstaðar siður að hver heimamaður veitti kvöldskatt öllum á heimilinu og kepptist hver við annan að verða ekki minni en hinir svo að það urðu eins margir kvöldskattar á jólaföstunni og margir voru menn á heimilinu. Þessi venja, að hver heimilismaður veiti kvöldskatt, er nú aflögð, en þó ber það við enn að nokkrir heimamenn, þrír eða fjórir, taka sig saman um að standa öllum hinum fyrir beina eitt kvöld og hinir taka sig þá saman aftur að endurgjalda þegnar velgjörðir annað kvöld, en bóndinn og húsfreyjan gera það ávallt í fyrrnefndum sýslum. Þessu til sönnunar set ég hér brag um kvöldskattinn eftir Árna Jónsson á Stórahamri í Eyjafirði sem sýnir hversu fjölbreyttur skatturinn var.

1.

Kvöldskatt fékk ég, kær og þekk
konan gekk um beina:
magáls þekkja mundi eg smekk;
má því ekki leyna.

2.

Langur þar hjá leggur var,
laukinn bar hann gæða;
bónda skar ég bitann snar,
brátt því fara að snæða.

3.

Stykki hér með hryggjar er,
huppsneið skerast mundi,
flot og smérið baugsól ber
blossa hvera Þundi.

4.

Rifið breitt mér var og veitt,
varla sneitt af skorti;
það var feitt og fleira en eitt,
frá er neitt ég gorti.

5.

Af barni rollu bringukoll
baugs lét tolla lína
á mínum bolla, mæt og holl;
mátti ég hrolli týna.

6.

Hákarls sniðið hafði kvið
hrundin iðu-glansa
og lagði niður á leirfatið;
lá mér við að stanza.

7.

Efst lá kaka eins og þak
sem eldsins bakan herti;
barðið spraka meður mak
í munninn rak og skerti.

8.

Þakkir fáðu, þakin dáð
þorna láðin kæra,
fyrir þáða þessa bráð
og þægð sem náðir færa.


  1. Almennt hafa jól og páskar verið taldar mestu kethátíðir og því sagði kerlingin: „Ef jóladaginn bæri upp á páskadaginn þá yrði mikil kethátíð.“ „En nú verður það aldrei,“ sagði önnur. Út úr þessu hnakkrifust þær lengi því önnur otaði fram skilyrðinu, en hin stóð á reynslunni.
  2. Orðið kvöldskattur bendir þegar á eitthvað óvanalegt því skattur er almenna orðið yfir morgunmat og er því óeiginlega haft um kvöldmat.