Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Páskar

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Um páskavikuna og páskana kann ég fátt að segja, en hnausþykkum grjónagraut man ég gjörla eftir bæði á skírdagsmorgun og páskadagsmorguninn og voru þeir kenndir við dagana og kallaður skírdagsgrautur og páskagrautur; því er sagt um Hvítárvalla-Skottu að menn sáu er hún var að þvo sér upp úr páskagrautnum. Aftur voru þau tíðabrigði á föstudaginn langa að gamlir menn hýddu þá börn sín fyrir allar þær ávirðingar sem þeim hafði orðið á um föstuna, en blökuðu þau ekki hendi þann tíma, en minntu þau aðeins á föstudaginn langa, að sagt er. Af þessum sið eimdi enn eftir í þeirra manna minnum sem nú lifa og er það eitt til dæmis um það að gömul kona átti dóttur manni gefna og gifta og var kerling komin í hornið til þeirra, en henni brá til gamla vanans og ætlaði að taka dóttur sinni tak á föstudaginn langa og hýða hana. En maðurinn konunnar meinaði tengdamóður sinni að hirta konu sína svo kerling varð að hætta við svo búið, fór að skæla sig og bað guð að fyrirgefa honum að hann vildi ala slíkt óstýrilæti upp í konunni.

Á páskadagsmorguninn verða þau venjubrigði að sólin kvikar til nokkur augnablik í því hún kemur upp. Það er kallaður „sólardans“ og sagt að svo hafi hún gert hvern páskamorgun um það leyti í Krists upprisu minning því Kristur hafi risið upp um sjálfa sólaruppkomuna.