Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Smalabúsreið

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Smalabúsreið

Af þessari pápisku spratt upp aftur annar siður hjá almúgafólki á austursveitum sem kallaðist smalabúsreið. Henni var svo háttað að ef smalinn, hvort heldur var karl eða kona, geymdi svo vel málnytu á búi að ekkert af henni missti máls fram til Þorláksmessu á sumri þóttust smalar eiga sjálfskyldu á að vera sjálfráðir og óháðir húsbændum sínum á Þorláksmessu og eiga þar á ofan í þokkabót málsmjólkina undan beztu kúnni á hverju búi. Af kýrnytinni gerðu þeir osta, grauta eða vellinga, eftir því sem hver vildi; þetta kölluðu þeir smalabú. Síðan riðu smalarnir, drengir og stúlkur, með smalabú sín um sveitina, fundust hópum saman á ýmsum stöðum, héldu átveizlur og höfðu í frammi ósiði og ill læti, og sá sem frakkastur var í þessu þóttist rækilegast halda Þorláksmessu. Þessi ósiður segir Jón prófastur fróði Halldórsson að hafi haldizt fram á daga Odds biskups Einarssonar, því á prestastefnunni á Kýraugastöðum á Landi 9. maí 1592 bannaði hann þessar smalabúsreiðir með annari ósiðsemi og hégiljum.

Þó tókust smalabúsreiðar ekki af að heldur með öllu því þær haldast við enn í dag í Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum og eru nú nefndar smalareiðar. Að vísu er nú alveg gleymt samband þeirra við Þorlákshelgina nema að því leyti að smalareiðin er um sama leyti sumars sem Þorláksmessan forna var, ævinlega 15. sunnudag í sumri, enda heitir sá sunnudagur enn smaladagur. Nú hafa smalareiðarmenn engin smalabú með sér, en aftur ríða miklu fleiri og jafnvel allt vinnufólk af heimilunum laugardagskvöldið fyrir smaladaginn og í aðrar sóknir, er á bæjum hópum saman um nóttina og við aðrar kirkjur daginn eftir, koma svo heim á hvern bæ í leiðinni og er þeim jafnan tekið með kostum og kynjum þar sem þeir koma. Ef ekki er til handa þeim hangið ket („fornket“) er skorin kind fyrir smaladaginn til að fagna með smalareiðarmönnum. Sumum bændum þykir það jafnvel óvirðing ef smalareiðarmenn koma ekki við og þiggja hjá þeim veitingar en þótt nokkrum þyki niðrí nóg um yfirferð þeirra og átroðning, en enginn vill þó verða til að synja þeim gistingar eða góðs beina. Ekki hafast smalareiðarmenn neitt ósiðlegt að nema ef það ber við að þeir verði ölvaðir; en ósvinna þykir það ef þeir verða svo á vegi staddir að þeir geti ekki verið við messu smaladaginn sjálfan.