Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Smalagollur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Smalagollur

Víða er það enn siður að gera smölunum einhverja minningu fyrir trúa geymslu sauðfjárins á sumrin og hef ég heyrt að það væri með þrennu móti síðan smalabúin hættu. Það er víða siður enn að gefa smölunum „stekklamb“ á vorin sem bóndinn tekur af smalanum á haustin og fóðrar fyrir hann fyrir ekkert veturinn eftir; þetta gengur svo koll af kolli og oft eru þessi stekklömb eða „smalalömb“ fóturinn undir bústofni smalans á síðan, ef hann er samhaldssamur. Í Múlasýslum hef ég heyrt að það væri siður að smalar mættu eiga málsmjólk allra ánna á Mikaelsmessu og gera það við sem þeir vilja; en mjög víða er það siður að gefa þeim gollurinn úr vænstu kindinni, hrútnum eða sauðnum, sem skorinn er að haustinu.

Íslendingar þekkja að vísu allir hvað gollur er, en þó skal ég skýra glöggar frá því. Í gollurinn er haft bæði gott ket og mör af kindinni og er hvort tveggja látið í „gollurshúsið“, sem er himna sú með allri fitunni á sem er utan um hjartað; gollurshúsinu er snúið um áður en þetta er í það látið sem nú var sagt, síðan er saumað fyrir það og soðið með öllu saman. Þessa glaðnings nýtur smalinn einn, en enginn annar; því er það kallaður smalagollur.