Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Sprengikvöld
Sprengikvöld
Það er hvort tveggja að Ísland var pápiskt til forna eins og önnur lönd í Norðurálfunni enda hafa menjar þess haldizt í mörgu jafnvel til þessa dags. Þó hér hafi ef til vill aldrei verið aðrar eins glaðværðir fyrir föstuna (langaföstuna eða sjöviknaföstuna) eins og í öðrum löndum um það leyti ársins, var þó til forna mikið haldið til þriðjudagsins í föstuinngang og er víða gert enn hér á landi, en í útlöndum er mánudagurinn mestur tyllidagur.
Þriðjudagskvöldið í föstuinngang veittu húsbændur hjúum sínum hangiket og flot eða – ef það var ekki til – baunir og annan undirstöðumat, svo mikið sem í þeim lá og meira til. Því var kvöld þetta kallað sprengikvöld eða sprengidagskvöld.
Þó er önnur saga til þess hvernig nafnið sé til komið og er hún svo að einu sinni bjó ekkja á búi sínu; hún hafði hjá sér dóttur sína og fleira fólk og hélt til sprengikvöldsins eftir efnum. Þegar búið var að borða um kvöldið segir húsfreyja: „Guði sé lof; mett er ég og mínir.“ Dóttir hennar ímyndaði sér að móðir sín hefði borðað meir en hún og væri saddari, gellur því við og segir: „Springi sá sem fyllstur er.“ En svo brá við að stelpan sjálf sprakk við þessi ummæli því hún var fyllst. Af þessu leiða sumir sprengikvöldsnafnið, en aðrir af því að þá skyldi hver maður borða undir spreng, en öllum þeim ketleifum sem af gengu og heimamenn gátu ekki torgað um kvöldið safnaði húsbóndinn saman á þriðjudagskvöldið, lét þær í skinnbelg, batt hann upp í baðstofumæni og lét hann hanga þar fyrir augunum á heimamönnum sínum alla föstuna þangað til á laugardaginn fyrir páska, þá tók hann ofan belginn og fékk hverjum sínar leifar sem „setið hafði í föstunni“ með því að nefna hvorki ket né flot alla föstuna, heldur skyldi þá nefna það „klauflax“ og „afrás“; því síður mátti bragða ket allan þann tíma og helzt sú venja enn í pápiskum löndum.
Þó voru það ekki einu skriftirnar sem þeir fengu er „úr föstunni gengu“ að þeir misstu matleifa sinna frá sprengikvöldinu, heldur höfðu þeir og fyrirgert páskaketinu sem Eggert Ólafsson kannast við og enn fleiri víti voru þeim sett. Sagt er að pápisku biskuparnir hafi sett ríkismönnum njósnir til að vita hvort þeir ætu ekki ket eða nefndu það um föstutímann, og tóku þá af þeim heilar jarðir í föstuvíti;[1] en af fátækari mönnum voru teknir aðrir fjármunir ef þeir áttu eða þeir voru sjálfir teknir í bönd sem erindið segir:
- „Enginn mátti nefna ket
- alla föstuna langa;
- hver það af sér heyra lét,
- hann var tekinn til fanga.“
Hitt er almæli að þeir sem vildu „sitja í föstunni“, en varð það þó á að gá ekki að sér grétu beisklega þá yfirsjón sína sem Jónas heitinn Hallgrímsson hefur sýnt dæmi til með Klauflaxinum. Þar segir svo:
„Sjö sinnum sjö eru 49, sagði Hallur í Skollafit; það er föstutíminn og þá má enginn nefna kjöt – varaðu þig, maður, á að syndga. Ég hef komið að honum í tunglsljósi þar sem hann sat á eldhúsglugga og seildist inn á rárnar og talaði við sjálfan sig í hálfum hljóðum. Hann sagðist liggja á dorg og vera að veiða og hélt það væri hverjum manni heimilt. Og þegar hann kom á þingið og sýslumaðurinn sagði hann hefði stolið, þá bar hann ekki á móti því nema hvað hann neitaði það hefði verið kjöt. „Ég hef tekið klauflax,“ sagði þjófurinn, „og býst við að verða hýddur, en það er bezt að bera sig karlmannlega.“ Það bar ekki heldur á honum að hann væri sérlega daufur. En þegar honum var lesin upp þingbókin og hann heyrði þar stóð „fimm fjórðungar af kjöti“, þá fór hann að gráta og sagði við dómarann: „Krofið var fimm fjórðungar, en hitt voru ekki mín orð; skrifið þér heldur sex fjórðunga og setjið þér klauflax.“ “
Annað merkisatriði er það um þriðjudaginn í föstuinngang sem tíðkazt hefur til forna að þá áttu þjónustumenn að greiða þjónustum sínum þjónustukaupið fyrir árið frá næsta þriðjudegi í föstuinngang eða vorkrossmessu vorið fyrir eftir því sem á stóð. Þó lítur svo út sem meira hafi fylgt með kaupgjaldinu sem þessi vísa bendir á sem kveðin er um þá venju:
- „Þriðjudaginn í föstuinngang,
- það er mér í minni,
- þá á hver að falla í fang
- þjónustunni sinni.“
- ↑ Það er sagt að njósnarmenn biskups nokkurs hafi einu sinni komið um kvöld á föstunni upp á glugga hjá ríkisbónda einum í því hann var að skera sundur ærsíðu og sagði um leið: „Og mögur er hún, ærsíðan svarna.“ Njósnarmenn báru biskupi þessi orð og athöfn bónda og tók biskup af honum fyrir tiltækið jörð þá sem síðan er sagt að heiti Ægissíða; þó fer missögnum um það hvernig það bæjarnafn sé undir komið. Eftir öðrum ríkismanni sem biskup hafði vítt stórum fyrir viðlíka synd og yfirtroðslu föstunnar er haft að hann hafi sagt: „Gott er flot og ket, en fullkaupa má það.“