Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Sprengikvöldið

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þriðjudagskvöld í sjö vikna föstuinngang gekk mikið á að brytja og sjóða hangikjötið. Þókti lítið handa milli ef ekki var sauðarfall fyrir fjóra. Skammtað var á stórum diskum; var sumum hótað straffi ef ekki var borðað svo freklega sem hæfa þókti. Allir mötuðust í hvílu sinni. Þá áttu allir að gjalda þjónustu kaup og ekki til orða tekið þó þær lægi hjá þeim að nóttinni. Þegar hjónin vóru búin að borða af langlegg og mjöðminni var hvurtveggja hengt upp yfir sæng hjónanna. Dytti annað fyrstu vikuna átti það parið að deyja það ár; dytti annað eða bæði um föstuna boðaði skammlífi, en langa lífdaga ef uppi tolldu jafnlengd. Að morgni fyrir dag heimti bóndi saman allar leifar. Geyma átti hann þær allar þar til laugardag fyrir páska; mun ég greina frá síðar hvurnin einum fórst það. Þegar á fætur var komið lagðist allt fólkið frá útidyrum til svefnhúsdyra, vóru settar iljar við hvirfil. En ef fleira var fólk en ein röð var byrjað á annari. Þarna var legið tvo tíma þar til öskudagur var bjartur um allt loft. Enginn mátti nefna kjöt né flot um alla langaföstu; lá við því fémunamissir eða lausnir af prestinum. Um sólaruppkomu var tekið til verks með öskupokaburð á karlmennum, en steinaburð á kvenfólki; var svo mikið bragð að því að karlmenn sáust með pokana hangandi á sér í kirkju, því þá var messað á miðvikudaga föstunnar. Enginn mátti hafa nærklæðaskipti alla föstu út, enn síður kasta lús af sér, og svo var ríkt að því gengið, ef lús skreið á úlflið eða úr höfði manns, varð að pota henni upp undir ermi, barm eða í höfuðhár. Enginn mátti banna barni sínu hvurnin sem þau breyttu illa, þar til á föstudag langa, þá var tekið að flengja; var það gert með skorpum eftir sem mörg og mikil þóktu afbrotin og mæður vóru heiftugar og harðir hegnendur. Lágu þau oft blóðrisa á eftir marga daga.

Ein móðir var sem ekki gat fundið barni sínu neitt misbrot alla föstu út. Daginn áður eða á skírdag setti hún mjólkurfötu í göngin svo barnið datt um hana og steypti, enda fékk það ráðninguna.

Eitt sprengidagskvöldið var gestur hjá bónda; borðaði hann kjöt sem aðrir og leifði miklu, en laugardag fyrir páska kom hann til bónda og heimti leifar sínar. Bóndi taldist undan þar til um nónbil; þá kom hann með kjötið, en af því mygluna vantaði en þetta nýsoðið fór gesturinn með það til prestsins og klagaði bónda fyrir honum, en hvurnin sem bóndi afsakaði sig mátti hann um síðir að meðganga brot sitt, sér hefði orðið það svöngum að glepsa bita af leifunum. Presturinn skipaði honum að gjalda sér leigurnar af ábýli hans í tíu ár, en gestinum skipaði hann að taka beztu kúna úr fjósinu hjá bónda. Borguðust með því vel greiðalaunin.

Einu sinni var einn grunaður af presti sínum um skyrát; bauðst vinnumaður hans til að komast eftir því hjá bónda. Hann fór um kvöld upp á gluggann og kallaði hastarlega: „Þurrkaðu skyr úr skeggi þér maður.“ Bónda varð bilt við og strauk hendi niður um skegg sitt, en sá úti var tók votta að bráðræði bónda. Og mátti hann láta ábýli sitt fyrir misbrot sitt jafnvel þó hann aldrei hefði skyr borðað í það skipti.