Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Staurvika og staurbiti
Staurvika og staurbiti
Næstu vikuna fyrir jólin eru vökur hafðar lengstar á Íslandi og vakan miðuð við sjöstjörnuna til sveita þar sem ekki eru stundaklukkur; er svo vakað þangað til stjarnan er komin í nónstað eða miðaftan. Þessi vika er bæði kölluð „augnavika“ og „staurvika“. Augnavika heitir hún af því að þá „vaka menn öll augu úr höfði sér“, þreytast við ljósbirtuna og verða dapureygðir, en staurvika af því að til þess að halda vöku fyrir fólkinu létu húsbændur „vökustaura“ á augu þess þegar það fór að dotta á kvöldin; það kalla aðrir „augnateprur“. Í vökustaura eða augnateprur voru hafðar smáspýtur, lítið gildari en brennispýtur og ámóta langar, baulubein eða gelgjubein úr þorskhöfði; var spýtan brotin eða baulubeinið til hálfs svo það gapti sundur öðrumegin, en var heilt hinumegin með lítilli brotalöm á. Upp í brestinn sem varð á spýtunni var látið augnalokið, og hélt spýtan (eða beinið) sér svo fastri á augnalokinu með því angarnir úr henni gengu á víxl inn í lokið svo það gat ekki dregizt niður fyrir augað, og urðu þeir svo að sitja bísperrtir með vökustaurana sem ekki gátu vakað öðruvísi. En af því húsbændur á Íslandi vita að allir vilja hafa nokkuð fyrir snúð sinn var það venja að hver húsmóðir gæfi hjúum sínum í vökulokin meðan staurvikan stóð yfir góðan bita af einhverju sjaldfengnu bæði í sárabætur og fyrir það að þau legðu svo hart að sér með vökur og vinnu. Sá glaðningur sem gefinn var í því skyni var kallaður „staurbiti“.