Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Tími mældur

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Áður en klukkur komu hingað til Íslands höfðu menn ýmislegt til að marka á tíma. Þegar sól sá voru menn nú vissir að afmarka tíma, en þegar ekki sá til sólar eða þoka var var verra viðureignar.

Jónas Gunnlögsson bóndi á Þrastarhóli segir mér[1] að þegar hann hafi verið á tólfta árinu (1848) þá hafi hann komið að bæ í svartaþoku. Fólkið vissi náttúrlega ekki hvað tíma leið sökum þess að hverki var klukka og ekki heldur sást til sólar. En til þess að deyja ekki ráðalaust þá tók einn heimilismanna yfirbolla tóman, setti hann á borð, tók síðan tinhnapp og hnýtti honum neðan í spotta og hélt honum svo hreyfingarlausum yfir bollanum. Smám saman fór að koma titringur á spottann sökum titrings sem kom á hendina (eins og ævinlega kemur á þann lim sem lengi er haldið hreyfingarlausum í lausu lofti) þangað til hnappurinn fór að slást út í bollaraðirnar. Eins mörg högg og hnappurinn sló í bollann eins margt var klukkan. Sumir mörkuðu tímann á maganum á sér, sumir á því hvað þeir prjónuðu mikið o. s. frv. Bezt voru þeir farnir sem voru svo nálægt sjó að þeir sæi fjöru og flóðs skipti.


  1. Guðmundi Davíðssyni á Hraunum.