Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Víti

Úr Wikiheimild

Eins og nú var sagt er margt af því illa sem fram við mann kemur kallað víti ef menn ímynda sér að manni sé sjálfum um það að kenna; þess vegna eru og nefnd „sjálfskaparvíti“ (sjálfsköpuð eður sjálfvalin víti) því svo lítur út sem Íslendingar hafi álitið eins og fleiri þjóðir að „hver væri sinnar lukku smiður“ þó annað sannmæli sýnist vera því gagnstætt, svo hljóðandi:

„Gefur sér enginn gæfu
gildur þó feginn vildi.“

En svo hyggnir hafa Íslendingar þó verið að þeir ætluðust ekki til að vítin hrini á öðrum en þeim sem gerði sig vísvitandi sekan í þeim, og fylgdu í því fast þessari reglu: „Ekki varast, nema víti.“ Nú eru hér nokkur víti.

Ef borin er út sæng hjóna á sunnudagsmorgni til að viðra hana þá verður hjónaskilnaður.

Ef reiðhestur er járnaður á sunnudegi þá heltist hann.

Ef stagað er að sjóklæðum manna á sunnudegi þá farast þeir í hinum sömu klæðum.

Einu sinni var sjómaður í Nesi við Seltjörn sem Magnús hét, en þjónusta hans hét Guðrún. Hún lék það að list og vana að hún stagaði aldrei að sjóklæðum Magnúsar nema á sunnudögum þótt hann vandaði oft um þetta við hana. Leið svo nokkuð fram eftir vertíðinni að ekki bar til tíðinda. Einn dag reri Magnús sem oftar og gerði þá hvassviðri mikið, þó komust allir með heilu og höldnu til lands, en ekkert sást né spurðist til Magnúsar þann dag út. En um nóttina eftir vaknaði Guðrún við það að Magnús kom upp á gluggann yfir henni og sagði: „Nálsporin þín í vetur hafa komið mér í sjóinn, Guðrún mín.“ Guðrúnu brá svo við þetta að hún varð vitstola nokkra stund eftir. En þegar af henni bráði sagði hún að orð Magnúsar hefðu valdið sér þessarar vitfirringar.

Ekki skal taka undir stálmakú á föstudegi né þriðjudegi því þá stendur hún í stað til næsta föstudags eða þriðjudags.

Aldrei má viðra föt eða breiða til þerris á sólstöðudag því þá drafna þau öll í sundur (sumir segja einungis sauðsvört).

Ef maður gefur heitmey sinni fyrst hníf eða skæri eða nálar eða nokkurt það járn sem hefur egg eða odd verður ást þeirra endaslepp því hún stingst þá út, sama er að segja um allan kunningskap.

Ef bóndinn ferðast eitthvað má konan ekki búa um rúm hans hið fyrsta kvöld sem hann fer að heiman því þá koma þau aldrei framar í eina sæng.

Ef maður kveður í rúmi sínu þá tekur maður framhjá.

Ef kona sem er með barni horfir á norðurljós þá tinar barnið sem hún gengur með.

Ef þunguð kona borðar gómfillu (úr sel) þá verður barnið holgóma.

Ef vanfær kona stígur yfir um breima kött verður barnið viðrini (aðrir segja vitfirringur).

Ef ólétt kona hleypur mikið þá verður barnið lofthrætt.

Ef þunguð kona gengur undir hálfreft hús (sem verið er að reisa) getur hún ekki fætt nema reft sé yfir hana (eða barnið getur ekki dáið nema krosstré sé reist yfir því).

Ef þunguð kona gengur milli bols og höfuðs á einhverri skepnu getur hún ekki fætt fyrr en hún er látin ganga aftur með jóðsóttinni milli bols og höfuðs á einhverri skepnu.

Ef ólétt kona situr á móti tungli svo það skíni á brjóst henni þá verður fóstur hennar tunglsjúkt.

Ef ólétt kona borðar steinbítsóþola verður barnið sem hún fæðir, aldrei kyrrt.

Ef ólétt kona borðar rjúpuegg verður barnið freknótt.

Ef vanfær kona borðar valslegna rjúpu eða annan fugl verður barnið með valbrá.

Ef þunguð kona drekkur vatnsleifar jórturdýra þá jótrar barnið.

Ef kona barnshafandi setur pott á hlóðir svo annað eyrað snúi upp, en hitt fram, verður barnið annaðhvort með fjórum eyrum eða það hefur annað eyrað á enninu, en hitt á hnakkanum.

Ef ólétt kona borðar selshöku verður skarð í hökuna á barninu (Pétursspor?).

Ef vanfær kona borðar með spæni eða skel sem skarð er í verður skarð í vör barnsins sem hún gengur með.

Ekki má sverfa í bæ þar sem kona liggur á gólfi, því þá fæðist barnið andvana.

Ef göngumaður gengur með poka bundinn á sig inn í bæjardyr án þess að leysa hann af sér hefur barn það herðakistil sem kona gengur með á bænum.

Ef gengið er á mannbroddum eða stungið niður broddstaf inni í húsum svo að ólétt kona gangi yfir broddholurnar verða holur upp í iljarnar á barninu sem hún gengur með.

Ekki má bera sauðaband í bæ þar sem þunguð kona er því þá verður gul rák á barninu um brjóst þess og handleggi.

Ekki má bera hrafnsfjöður ósærða í bæ nema áður sé bitið á broddi hennar, annars getur barn það ekki talað sem kona gengur með.

Ekki má fleygja málbeini fyrir hunda eða í sorp þar sem ómálga barn er á bæ eða í móðurkviði því þá fær barnið aldrei mál sitt, heldur skal stinga beininu í veggjarholu eða geyma vel á annan hátt og fær barnið þá því fljótara málið.

Ekki má gefa ungbarni lifur nema það geti nefnt „lifur“, annars getur það aldrei nefnt „l“ (ellið).

Ekki má brjóta fótlegg úr kind því þá fótbrotnar sauðkind sem maður á eða eignast.

Ekki má éta eyrnamark af kindarhöfðum, þá verður maður sauðaþjófur.

Ekki má éta smér við hangiketi, því þá verða menn aldrei jarðeigendur.

Ekki má drepa sauðalús (færilús), þá verður maður aldrei heppinn með sauðfé.

Ekki má slíta niður dordingul né rífa viljandi kóngulóar vef því það er ólánsmerki.

Þegar dordingull hangir niður í húsum skal ekki slíta hann niður sem hér segir, heldur skal bregða undir hann handarbaki og segja: „Upp, upp, fiskikarl, kona þín liggur veik á sæng (kona þín liggur á gólfi), átján börn í fangi;“ eða: „Róðu neðan fiskikarl, upp ef þú veizt á gott, niður ef þú veizt á illt.“

Ekki má kveða eða syngja í búri, því þá kveður maður sult í búrið eða „syngur óblessun í búrið.“

Ekki mega fiskimenn kveða eða syngja við færi sitt eða vörpur eða vararruðning, því fylgir óblessun.

Ekki má hundur koma nærri veiðarfærum, það gerir veiðiglöp, eins ef hundur er hafður í skipi.

Ætíð er sultur og seyra í því búi sem mikið er veitt af rjúpum.

Ekki má kemba sér í rúmi sínu því þá verður maður karlægur nema maður segi: „Kasta ég frá mér kör, en ekki kambi.“ Ef kona kembir sér þannig kemst hún hart niður að börnum sínum eða hún missir mann sinn.

Ef snældu er snúið eða spunnið niður í höfuð á barni vex það ekki úr því.

Ef börn klippa mat sinn með skærum í stað þess að skera hann með hníf, þá vaxa þau ekki meira.

Ef menn skera matarbita frá sér í staðinn fyrir að skera hann að sér sker maður bita handa skollanum.

Ef maður sprengir líknabelg í bæjarhúsum þá skemmtir maður skollanum.

Ekki má ólæs (aðrir segja óskrifandi) maður skrifa eða pára á þil eða svell eða snjó, þá skrifar hann sig til skollans. Sagt er að einu sinni hafi maður verið að pára á svell með stafbroddi og þegar hann hafði verið að því langa stund kom til hans maður og spyr hann hvað hann sé að gera. Hann segist vera að pára út svellglottann þann arna að gamni sínu. Hinn bað hann bíða meðan hann aðgætti hvað mikið væri komið, og gerði skrifarinn svo, en komumaður fer að hyggja að párinu og segir: „Nú vantar aðeins fáa stafi til þess þú skrifir þig til skollans.“ Komumaður var raunar engill, sendur af himni.

Ef maður brennir viljandi af sér hárið brennir maður af sér auðinn.

Ef berfættur maður færir sig í allt fyrst á annan fótinn færir hann sig í ógæfuna (tekur fram hjá) og færi hann sig úr öllu á öðrum fætinum færir hann sig úr gæfunni (skemmtir hann skrattanum).

Ef maður slítur gras það sem vex inn um glugga eða niður um húsþekju (húsheigul) þá missir maður einhvern ættingja sinn.

Ef maður faðmar dyr (heldur sinni hendi á eða um hvorn dyrastaf) vill maður að minnsta kosti einhvern feigan af þeim sem inni eru.

Ekki má bera hrafntinnu í bæ, hún vekur ósamlyndi milli fólksins (hjónanna).

Ekki má bera eld í bæ þar sem eldur er fyrir, því það á að auka ósamlyndi.

Ef maður (barn) gengur aftur á bak gengur það móður sína ofan í jörðina.

Ef óstaðfest barn tekur undir stálma kú flýgur undir hana.

Ef börn blóta kemur svartur blettur á tunguna á þeim.

Ef barn kveikir á hríslukvisti eða spýtu og veifar því til og frá eða með eldinum í, þá pissar það undir nóttina eftir.

Ef barn er látið út um glugga á ekki að láta það inn um dyr aftur því það vex þá ekki framar, heldur skal láta það inn um gluggann aftur.

Ef börn syngja eða kveða yfir mat sínum blessast þeim hann ekki (verða jafnsvöng eftir sem áður).

Ef maður hristir hóbandið með ketilkrókunum þá skemmtir maður skrattanum.

Ef tveir kveða í einu sína vísuna hver þá skemmtir maður skrattanum.

Ef maður situr auðum höndum situr maður undir sjö djöflum, en hampar þeim áttunda.

Ef maður gengur með hendurnar fyrir aftan bakið þá teymir maður djöfulinn – og er það illt verk.

Ef ræðari lætur nokkuð af árarhlummunum standa aftur úr hendi sinni þá rær djöfullinn með honum.

Ef maður skilur eftir orf sitt og brýnir ekki ljáinn áður þá skítur skrattinn á eggina á meðan svo ljárinn bítur aldrei á því dengsli.

Ef maður lætur sér vaxa stórar neglur og sker þær af allar í einu, óhlutaðar, þá skæðir maður skrattann.

Þegar maður sker neglur sínar eða klippir skal ævinlega skera hverja nögl, klippa eða bíta í þrennt, því annars eykur fjandinn saman úr þeim heilt umfar í náskipið. Þó er enn sú sögn um neglur ef þær eru skornar heilar að fjandinn auki þær saman og gjöri úr þeim fögur skip eða róðrarferjur. Aðrir segja að hann negli aðeins skipið saman með þeim.

Eitt sinn bar svo við undir Jökli að skipshöfn ein gekk til sjávar nokkru seinna en aðrar og að skipi því er hún ætlaði að væri sitt því það stóð á sama stað; skipverjar hrundu fram skipinu í ákafa því þeir þóttust hafa helzt til lengi sofið. En þegar þeir voru komnir skammt frá landi sökk skipið undir þeim og týndust allir sem á því voru. En það sögðu þeir sem fyrr reru þennan morgun úr sömu vör að þeim hefði virzt skip þetta samsett af eintómum mannsnöglum og þó furðu fagurt. Þessar sagnir um naglaskurð og um sól í úlfakreppu eru auk þeirrar venju sem enn er algeng að skera bjóra úr skó fyrir tá og hæl nálega þær einu leifar sem ég veit til að loði eftir af goðasögunum hér á landi.

Ef maður lætur skera hár sitt með þverrandi tungli þá þverrar hárið eða rotnar af, en vex ef það er skorið með vaxanda tungli.

Ef maður snýr sér til norðurs meðan hár manns er skorið og neglur verður maður skammlífur.

Ef maður veifar í kringum sig staf eða keyri eða tág eða einhverju því sem þytur kemur af þá fælir maður frá sér heilagan anda; aðrir segja: „Það má ekki því enginn veit hvað í loftinu býr.“

Ekki má benda á himintungl eða tala óvirðulega til þeirra því þá kemur manni einhver hefnd.

Ef steini er kastað í sjó reiðist hann og kemur hafrót sem mörg skip farast í.

Ef steini er kastað yfir skip þegar það leggur frá landi þá ferst það og kemur ekki að aftur.

Ef bent er á skip á sjó eða þau eru talin þá farast þau.

Ef sorpi er sópað af bæjarhlaði þá kemur ofsahríð.

Ekki má gretta sig í spegil því þá verða menn afskræmdir í andlitinu.

Enginn mundi gefa öðrum sonarfisk og ekki góð móðir barni sínu ef hún vissi hvað við lægi.[1]

Ef hundur stígur ofan í ílát sem borðað er úr fær sá hundspör (útbrot) á hendur og andlit sem borðar úr ílátinu.

Ef prestur rær á sjó skal hafa kirkjuna opna á meðan og kemst hann þá heill á hófi að landi, en annars ekki; ekki má heldur viðra bækur meðan prestur er á sjó.

Ef maður borðar selsnýra og gefur vini sínum með sér svo báðir neyta verða þeir óvinir alla ævi upp þaðan.

Ef maður borðar hringorm í fiski fær maður hringorma (útbrot) á útlimi.

Ef skar af ljósi logar þegar því er kastað á gólfið skal ekki slökkva það, heldur láta það deyja sjálft. Er það hið mesta miskunnarverk; en hver sem út af því bregður verður stakur ólánsmaður. Þessu er svo varið að austur í heimi er þjóð ein sem hvorki hefur frið né viðþol lengur en slík skör lifa. Aðrir segja að álfar kveiki ljós hjá sér við skör þessi. – Ef maður lætur ljós smádrepast og kvelur það þá berst maður lengi við öndina.

Ekki má drekka af pottbarmi eða stíga yfir pott því þá getur maður ekki skilið við nema potti sé hvolft yfir höfuð manns í andlátinu.

Ef maður lætur sokka sína undir höfuð sér getur maður ekki dáið nema sokkar séu látnir undir höfuð manns deyjandi.

Ef rjúpnafiður er eingöngu í sæng manns þá getur maður ekki dáið.

  1. Þetta er haft eftir tröllkonu.