Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Magnús á Glúmsstöðum og hundurinn Flugandi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Magnús á Glúmsstöðum og hundurinn Flugandi

Þegar Jón Þorláksson sýslumaður (1670-1712) kom til Múlasýslu, fór hann að Víðivöllum ytri í Fljótsdal til búskapar. Þá bjó bóndi sá auðugur á Glúmsstöðum í sömu sveit, er Magnús hét Jónsson. Átti hann sjálfur ábúðarjörð sína, en ekki átti hann barna. Sýslumanni þótti jörðin væn og falaði hana af Magnúsi, en hann vildi ekki selja hana. Þá er sagt, að sýslumaður hafi mælt: "Þú skalt ekki njóta Glúmsstaða samt." "Því mun auðnan ráða," sagði hinn. Vinnumaður var hjá sýslumanni, hinn mesti galdramaður, er hét Jón og var Þórðarson og kallaður síðar Dalhúsa-Jón. Er þá sagt, að sýslumaður hafi beðið Jón að vekja upp draug til að drepa Magnús, og er sagt, að hann hafi svo gert, en fyrir ekki komið, því að Magnús lifði sem fyrr. Er þá mælt, að sýslumaður hafi sagt: "Þú hefur öngvan draug sent honum!" Þá sagði hinn: "Jú, jú! En á honum vinnur enginn draugur, nema hann sé sakramentaður áður, en hvar fáið þér prest til þess?" "Bjarni fjósamaður minn er nokkuð lærður. Ég get bætt við lærdóm hans og látið vígja hann, og svo skal hann þjónusta drauginn." Þetta fór fram, sem sýslumaður vildi, að Bjarni vígðist og fékk Möðrudal. Þá skrifaði Jón sýslumaður honum til að finna sig og hræddi hann þá til að þjónusta drauginn. En áður en þetta gerðist, segja menn, að sýslumaður hafi látið byggja kirkju á Víðivöllum og hafi engin þjónustugjörð verið framin í henni önnur en þessi. En svo brá Magnúsi við, þegar þessi draugur kom til hans, að hann hafði aldrei frið fyrir draugsa, þó yfir tæki á nóttunni, því þó tveir menn með ljósi vektu yfir honum, gat hann varla sofnað væran dúr. Hann leitaðist víða fyrir að fá hjálp við þessum ófögnuði, en allar ráðleggingar urðu til einskis. Var draugur þessi kallaður Flugandi.

Þá var suður á landi mjög gamall Magnús prestur Pétursson, sem þá er sagt, að verið hafi á Hörgslandi, nafnkenndur kunnáttumaður og hjálpvættur allra þeirra, sem hann heimsóttu. Magnús á Glúmsstöðum hafði sem aðrir heyrt af presti, byrjaði því ferð sína og lenti mjög hrakinn og hrjáður að Hörgslandi. Þegar þar kom, lá prestur veikur og kominn nærri í andlátið. Samt fékk Magnús leyfi að koma inn til hans, tjáði honum öll vandkvæði sín og bað hann hjálpa sér. En prestur svaraði: "Ég veit það er góðverk að venda þessum ófögnuði af þér, en nú er ég ekki maður til þess og hef nú annað að hugsa. Ég á nú ekki marga daga ólifaða, og þarftu ekki að nefna slíkt við mig." Dóttur, er sagt, að prestur hafi átt, Snjólaugu að nafni. Hún var áheyrandi tal þeirra og sagði við föður sinn: "Viljið þér ég reyni að hjálpa manninum?" Prestur mælti: "Ekki segi ég þér það, og ég banna þér það ekki heldur, ef þú vilt reyna það." Hún gegndi: "Mér er hugur á því, en hann verður að bíða til morguns." En snemma daginn eftir kom Snjólaug til föður síns, og sagðist hún nú búin að vekja upp tvo drauga, en sér mundi ekki veita af að vekja upp þann þriðja, ef duga skyldi, því sínir draugar væru svo miklu aflminni og ekki eins magnaðir. Prestur svaraði: "Við eigum fyrir sál að sjá, Snjólaug mín." Segir hún þá við Glúmsstaða-Magnús: "Nú máttu fara af stað, en bregð þú hvergi út af ráðum þeim, sem ég legg þér. Þegar þú kemur að Breiðamerkursandi, þá mundu mig um það að líta aldrei aftur, hvað sem þú heyrir, en það verða ódæmi mestu, því sandurinn gnötrar og allt skelfur, en hljóðin fádæmi, en gerir þú þetta, þarftu ekki framar draugnum að kvíða. Mislukkist þetta, þá legg ég þér það ráð: Farðu fyrir innan allar byggðir, eftir það þú ert kominn fyrir Hornafjörð, og komdu hvergi til byggða, fyrr en þú kemur að Glúmsstöðum. Breytir þú eftir þessu, verður þú og laus við drauginn. Mislukkist þetta hvort tveggja, þá er þriðja ráðið, sem ég legg þér: Þú skalt aldrei fara í hvarf við Glúmsstaðabæ, hvorki nótt né dag í þrjú ár: Haldir þú það, verður þú og laus og mátt haga þér sem aðrir menn eftir það."

Þegar Magnús fór frá Hörgslandi, segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kom að sandinum. Hugleiddi hann ráðið, lagði svo á sandinn og fór strax að heyra áflog drauganna, hljóð og barsmíð, svo allt skalf og nötraði. Samt hélt hann áfram lengi, en alltaf heyrðist honum harkið nálgast sig. Loksins skar fram úr öllum fádæmum, og þá er hann átti eftir lakan fjórða part af sandinum, þá leit hann aftur og sá um leið, að tveir draugar voru búnir að sökkva einum niður allt upp undir hendur, en þá brá draugnum svo við, að hann reif sig upp á milli hinna tveggja og henti þeim af sér, eins og þeir hefði ekkert við honum, og svo var þetta ráðið þrotið. Þegar hann fór úr Hornafirði, lagði hann leið fyrir innan allar byggðir. En vegna ókunnugleika villtist hann út í Hamarsdal, þar hann átti að vera einn á ferð, og gat hann svo ekki þetta ráðið uppfyllt. En aldrei varð hann var við drauginn, eftir að hann fór frá Hörgslandi, og nú síðast kom hann heim og ætlaði nú að nota síðasta ráðið og fara ekki í hvarf við bæinn, og það tókst honum þangað til seint á útengjaslætti á þriðja ári, og þá átti hann ekki eftir nema mánuð af tímanum. Þá bar það við eina nótt, að hann vaknaði við, að hestur kroppaði á þekjunni uppi yfir honum. Enginn var í skála hjá honum, því karlmenn voru allir inni á Seli að ljúka þar við heyskap. Fór hann því sjálfur út og fór að reka hestinn. Og þegar hann kom út, sá hann, að sótrauður hestur var að kroppa á skálanum, og kannaðist hann ekki við hann, rak hann ofan af bænum og út á túnið, lagðist aftur niður, en vonum bráðara var hesturinn aftur farinn að narta á þekjunni. Hann vill þá standa upp aftur, en konan segir honum að láta hestinn vera, en hann hélt, að hann gæti víðar étið en á bænum, fór út og rak hann nokkru lengra en fyrr, kom inn öðru sinni og lagðist niður. Litlum tíma þar eftir var klárinn kominn á þekjuna og enn farinn að narzla. Þá gramdist honum og fór út, þótt konan bannaði honum það. Hún heyrði, að hann rak hestinn af bænum. En svo leið það, sem eftir var af nótt, að hann kom ekki aftur. Um morguninn, þegar bjart var orðið, fór hún að leita hans og fann hann dauðan fyrir utan Leiti, sem kallað er, illa útlítandi. Þá hafði hann gengið of langt um nóttina og horfið svo bærinn, og svona varð öll viðleitni hans að engu.