Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Sagan af Oddi kóngi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Oddi kóngi

Einu sinni var gamall kóngur. Hann átti hvorki drottningu né börn þegar hér var komið sögunni; en ástsæll var hann af þegnum sínum og þókti þeim mein að því að hann skyldi ekki eiga neinn ríkiserfingja.

Einu sinni kom þar her við land og hét sá Oddur sem fyrir honum réð. Hann skoraði á kóng til orrustu og fór svo að kóngur féll. Oddur tók þá ríkið undir sig og gjörðist þar kóngur yfir. Hvorki var Oddur kóngur kvongaður né heldur átti hann börn, en undarlega fljótt tókst honum að ná hylli þegna sinna. Næsta haust eftir að hann hafði tekið við ríki kom maður til hirðar hans sem beiddist veturvistar. Kóngur gaf honum kost á því, en áskildi það við hann að hann skyldi segja sér á sumardaginn fyrsta glöggari deili á sér en almenningur vissi; annars kostar mundi hann láta drepa hann þegar í stað. Veturtökumaður hét því ef hann gæti. Nú líður veturinn svo að veturgesturinn verður engrar nýlundu var um kóng, enda leitaðist hann lítið við það. Á sumardaginn fyrsta kallar kóngur hann fyrir sig og spyr hvers hann sé nú vísari um sig en þegar hann hafi komið til. Veturgesturinn segist [ekki] frekar um hann vita en um haustið og það sem öllum hirðmönnum hans sé kunnugt. Kóngur segir að hann hafi vitað skildaga þeirra fyrir fram og lætur svo drepa hann. Það fundu menn að kóngi féll illa að verða að efna ill heit sín við veturgest sinn þó hann léti lítið á bera.

Haustið eftir kom maður til Odds kóngs og bað hann veturvistar og veitti kóngur það með sama skildaga og áður. En á sumardaginn fyrsta fór eins og fyrri að veturgesturinn vissi ekkert gjör um kóng en áður og lét kóngur svo drepa hann. Þessu sama fór fram sex vetur í beit að kóngur hafði sinn veturtökumann hvern vetur, setti það sama upp við alla og lét drepa alla sumardaginn fyrsta þegar þeir gátu ekki sagt honum hvernig á honum stæði.

Sjöunda haustið kom enn maður og bað kóng veturvistar. Kóngur veitti honum það með sama atkvæði sem hinum fyrri. Maðurinn segir að hann verði þá að lofa sér að sofa í sama herbergi sem hann sofi sjálfur í um veturinn. Kóngur gerir svo. Maðurinn hefir nú sterkar gætur á um kóng bæði nótt og dag ef hann gæti orðið einhvers vísari; en aldrei tókst það. Á jólanóttina um veturinn fóru þeir báðir að hátta og vakir veturgesturinn þá eins og hann var vanur og bíður þess að kóngur sofni, en læzt þó sjálfur sofa. Þegar kóngur ætlar að hann muni vera sofnaður fer hann aftur á fætur og út. Maður[inn] klæðir sig í skyndi og fer út í hámót á eftir honum og sér hann að kóngur heldur frá borginni niður að móðu einni sem þar var skammt frá og steypir sér í hana og maðurinn á eftir. Þeir kafa báðir um stund og koma svo fram á fögrum völlum; en það þykist veturgesturinn skilja að það muni vera í undirheimum. Sér hann þar fagra borg á völlunum og mannfjölda mikinn að leikum. Þangað stefnir kóngur og hinn á eftir. Þegar kóngur kom nærri mannþyrpingunni koma margir í móti honum og einn þeirra þykir honum vera í kóngsskrúða og faðmast þeir innilega Oddur og hann. Maðurinn blandar sér nú í mannþröngina, en er þó heldur utan við og gefur því gætur hvað um Odd verður. Hann sér þá að hann hverfur um stund, en þekkir hann aftur og er hann skrýddur dýrðlegum drottningarskrúða og gengur með undirheimakónginum til kirkju og mannfjöldinn með þeim. Þegar þessari tíðagjörð var lokið var gengið til hallar og setzt undir borð og sat drottning í hásæti hjá kóngi og var döpur í bragði. Kóngur segir við hana að enn hafi hún tekið veturvistarmann og spyr hvort hún teldi að hann muni verða þeim að nokkru liði. Ekki segist hún vita það, en þó hafi hann sterkar gætur á sér hvar sem hún fari enda sé þar nú að búa að hann dugi, annars fái þau aldrei að sjást framar. Ýmsar harmatölur höfðu þau fleiri sem veturvistarmaður Odds heyrði og skildi á þeim að Oddur mundi vera í ánauðum ofan jarðar og að hann væri raunar drottning undirheimakóngs. Þegar leið á nóttina heyrði maðurinn að drottning ætlaði að fara að hafa sig til ferðar aftur upp í mannheima. Hélt hann þá sem hraðast burtu og að móðunni, steypti sér í hana og kafaði unz hann kom þar upp aftur sem hann hafði áður lagt út í, hraðar sér svo heim til borgar, afklæðir sig og leggst fyrir og læzt nú sofa. Litlu síðar kemur Oddur í herbergið og gætir að veturgesti sínum hvort hann muni sofa og finnur að svo er. Leggst hann svo sjálfur til svefns.

Eftir jólin fór kóngur að verða allur annars hugar, bæði svo harmfullur og svo afskiptalaus um ríkisstjórnina að hann sinnti engu. Þetta þókti mönnum hans mesti skaði, en það vildi til að veturgesturinn veitti ríkinu fulla forstöðu og varð svo ástfólginn landslýðnum öllum að það urðu samtök þeirra að bera kóng ofurráða ef hann ætlaði að drepa þenna veturtaksmann sinn sem hina fyrri á sumardaginn fyrsta. Nú leið að þeim degi og kallaði þá kóngur veturgestinn fyrir sig og spyr hann með mikilli áhyggju hvers hann hafi orðið vísari um sig í vetur. Maður segist lítils hafa orðið vísari, en svo mikið geti hann sagt honum að betur mundi honum sæma annar búningur en sá sem [hann] hefði borið um stund í mannheimum. Kóngur umfaðmaði hann og þakkaði honum alúðlega þessa sögu. Eftir það kvaddi kóngur þings og lýsti því þar yfir að hann gæfi veturtaksmanni sínum þetta ríki sitt, því hann ætlaði nú sjálfur að vitja átthaga sinna, og kvaddi alla þegna sína og síðast veturgest sinn sem hann þóktist eiga bezt upp að inna. Eftir það hvarf hann, en veturvistarmaðurinn settist að ríkjum. Nokkru seinna þegar kóngurinn nýkjörni sat yfir borðum vissi enginn fyrri til en skrúðbúin kona í drottningarskrúða kom inn í höllina. Kóngur...

(Hér þrýtur handritið og hefur aldrei verið lengra).