Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Uppruni álfa

Úr Wikiheimild

Einu sinni var maður á ferð. Hann villtist og vissi ekki hvað hann fór. Loksins kom hann að bæ sem hann þekkti ekki neitt. Þar barði hann á dyr. Kom kona roskin til dyra og bauð honum inn. Hann þáði það. Voru húsakynni fremur góð á bænum og þokkaleg. Konan leiddi manninn í baðstofu og voru þar tvær stúlkur ungar og fríðar fyrir. Ekki sá hann fleira fólk á bænum en hina rosknu konu og stúlkurnar. Var honum vel tekið, gefinn matur og drykkur og síðan fylgt til sængur. Maðurinn bað um að fá að sofa hjá annari stúlkunni og var það leyft. Leggjast þau nú út af. Vildi þá maðurinn snúa að henni, en fann þar engan líkama sem stúlkan var. Þreif hann þá til hennar, en ekkert varð milli handa hans; þó var stúlkan kyrr hjá honum í rúminu svo hann sá hana alltaf. Hann spyr hana þá hvernig þessu víki við. Hún segir að hann skuli ekki undrast þetta, „því ég er líkamalaus andi,“ segir hún. „Þegar djöfullinn forðum gjörði uppreist á himni þá var hann og allir þeir sem með honum börðust rekinn út í hin yztu myrkur. Þeir sem horfðu á eftir honum voru og reknir burtu af himni. En þeir sem hvorki voru með né móti honum og í hvorugan flokkinn gengu voru reknir á jörðu niður og skipað að búa í hólum, fjöllum og steinum og eru þeir kallaðir álfar eða huldumenn. Þeir geta ekki búið saman við aðra en sjálfa sig. Þeir geta gjört bæði gott og illt og það mikið á hvern veginn sem er. Þeir hafa engan slíkan líkama sem þér mennskir menn, en geta þó birzt yður þegar þeir vilja. Ég er nú ein af þessum flokki hinna föllnu anda og því er engin von að þú getir haft meira yndi af mér en orðið er.“ Maðurinn lét sér þetta lynda og sagði síðan frá því sem fyrir sig hefði borið.