Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Árni Höskuldsson og draugurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar menn finna dauða menn skal ekki ganga fram hjá þeim án þess að hlynna nokkuð að þeim því þá leggjast þeir dauðu á þann sem fram hjá gekk og ásækja hann bæði í vöku og svefni. Þessu til sönnunar er þessi saga:

Í Neðriskútu í Siglufirði bjó eitt sinn sá maður er Höskuldur hét; kona hans hét Guðný; son áttu þau þann er Árni hét.

Veturinn sama sem Árni skyldi staðfestast týndist skip á Siglufirði og fórust menn allir. Tveimur mánuðum seinna bar það við að Árni ætlaði að ganga til næsta bæjar – út að Staðarhóli. Þetta var í rökkrinu. Þegar hann er kominn hér um bil á miðja leið verður honum litið niður í fjöruna og sér þar einhverja aflanga þústu. Hugsar Árni að þetta sé kannske hákarl eða smáhvalur og hleypur strax niður í fjöru; en þegar hann kom að þústunni sá hann að það var marflóetinn mannslíkami og löfðu iðrin útbyrðis. Þegar Árni sá þetta varð hann svo hræddur að hann leið í ómegin og lá þannig dálitla stund. Þegar hann raknar við aftur var orðið æði dimmt; tekur hann þá á sprett og heim á leið, en á leiðinni verður honum litið aftur og sér hvar Láki (Þorlákur hét sá dauði) kemur á eftir með iðrin lafandi og hringlar í beinunum. Þegar Árni sá það herti hann hlaupið sem mest hann mátti. Láki herti sig líka og þannig komust þeir suður að Neðriskútu að aldrei náði draugsi Árna; og þegar Árni kom í bæjardyrnar var Láki á túngarðinum, en þegar Árni komst inn í baðstofuna rak draugsi stóreflis högg á dyrnar. Ekki gjörði Láki meira að verkum í það skipti og daginn eftir fannst hann niðri í fjöru eins á sig kominn og þegar Árni fann hann. Var hann tekinn og honum veittur gröftur í kirkjugarði, en Láki lá ekki kyr að heldur; ásókti hann Árna og fylgdi honum lengi þaðan í frá; mátti ekki Árni einn vera úr því tók að dimma af nótt.

Höskuldur átti hjall stóran fullan með hákarli, þorski og riklingi; stóð hann fast við baðstofuvegginn og var fastur við hann.

Einu sinni eina nótt eitt haust hafði Árni engan frið fyrir Láka svo hann varð að flýja upp fyrir móður sína. En þegar draugurinn gat ekki náð honum á sitt vald – kerla verndaði hann – fór hann í hjallinn og umturnaði þar öllu og ónýtti flest sem ætilegt var í honum. Sagði Árni svo frá að marga nótt hefði hann átt leiðinlega, en enga þó í samanburði við þessa því að skruðningarnir úr hjallinum heyrðust svo vel.

Guðný kona Höskuldar lét það til vonar að draugagangur væri mikill þegar aldrei væri haft þar yfir gott orð. Höskuldi þókti það líka trúlegt og fékk sér sálma- og lestrarbækur, en Láki lá ekki kyr að heldur. Var þá sent til galdramanns á Róðhóli í Sléttuhlíð er Björn hét og hann beðinn um ráð á móti draugsa. Björn gaf það ráð að rétt í ljósaskiptum dags og nætur skyldi Árni fara út í kirkjugarð, grafa holu ofan í leiðið og gjöra þarfindi sín í hana og moka síðan moldinni ofan í holuna. Einnig skyldi hann hafa með sér tvær stálnálar og reka sína nál ofan í hvorn enda leiðisins. Dugði þetta ráð svo vel að enginn varð var við Láka eftir það.