Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Það er skuggi fyrir dyrunum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Það er skuggi fyrir dyrunum“

Guðmundur faðir Margrétar konu Jörundar Jónssonar á Syðstabæ í Hrísey bjó eitt sinn á Moldhaugum í Kræklingahlíð. Þar var þá hjá honum Jón faðir Moldhaugna-Markúsar. Jón þessi var skyggn. Einu sinni um veturinn í hlákuveðri fór Jón út á vökunni. Þegar hann kom inn í göngin aftur mætti hann Guðmundi bónda. Jón spyr hann hvert hann ætli. Guðmundur segist ætla út. Þá segir Jón: „Farð' ekki út, Guðmundur; það er skuggi fyrir dyrunum.“ Guðmundur gaf sig ekki að því, heldur hélt áfram, en þegar hann var nýkominn út fyrir bæjardyrnar datt hann og viðbeinsbrotnaði.