Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Búnaður drauga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Búnaður drauga

Það er einkennilegt að þegar menn sjá afturgöngur eður svipi dauðra manna, þá eru þeir ekki eins búnir og þeir voru vanalega í lifandi lífi; ekki heldur eins og þegar þeir dóu, heldur eins og þegar þeir fundust. Því til sönnunar eru fáein dæmi.

Prestur frá Glæsibæ í Eyjafjarðarsýslu fórst í sjó og fannst ekki fyr en löngu seinna og var þá orðinn músétinn. Upp frá því sást hann oft á flakki og var alla tíma músétinn.

Maður fórst í Hörgá og þegar hann fannst var líkið berfætt á öðrum fætinum. Þaðan í frá sást hann ganga í kring berfættur á öðrum fætinum.

Ekki hefi ég heyrt neinar sérstakar sögur af þessum mönnum.

Stúlka fórst utarlega í Eyjafirði og rak inn á Arnarnesmöl. Þegar hún fannst hafði hún rauðan vettling á annari hendinni, en var berhent á hinni. Þar á eftir urðu ýmsir er um mölina fóru í myrkri eður tunglskini varir við stúlku þessa. Stóð hún þá í götunni fyrir þeim og bandaði að þeim með þeirri hendinni sem rauði vettlingurinn var á. Þókti því ekki fýsilegt að vera þar einn á ferð úr því tók að skyggja.

Einu sinni var hún nærri búin að gjöra mann ærðan. Svo stóð á að maðurinn þurfti að fara ofan úr Fagraskógi og niður í Arnarnes. Þetta var um haust og var skemmsta leið yfir mölina. Það var orðið dagsett, en tunglsljós var nokkuð. Manninum var boðin fylgd, en hann kvaðst ekki þurfa þess og sagðist ekki hræðast „djöfulinn hana Rauðhönd“. Jæja, maðurinn hélt af stað og verður einskis var fyr en hann kemur hér um bil á miðja mölina; þá stendur stúlka í götunni. Hann kallar og spyr hver þar sé, en honum er ekki gegnt. Ætlar hann þá að víkja út úr götunni og komast fram hjá henni, en stúlkan færir sig fram að sjónum[1] eftir því sem hann færir sig. Þannig færðu þau leikinn ýmist suður að tjörninni eða fram að sjónum. Það fann hann að hún vildi einlægt koma sér í sjóinn og loks þegar hann var kominn fast fram í fjöru sá hann að svo búið mátti ekki lengur standa, heldur hleypti í sig illsku og reiði og hljóp beint á drauginn. Vissi hann þá ekkert hvað af honum varð, en samt þorði hann ekki að stanza fyr en hann kom heim í Arnarnes. Var hann þá líkari óðum manni en manni með öllum mjalla; svo hafði hann orðið hræddur.

  1. Mölin er þannig að tjörn er sunnan við hana, en sjór að norðan. [Hdr.]