Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Draugurinn með selspartinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draugurinn með selspartinn

Á milli Pálmholts, Syðrabakka og Bragholts í Möðruvallasókn eru mikil holt og mýrasund á milli; heitir landspláss þetta einu nafni Pálmholtsásar. Þar er talsverður reimleiki; heyrast oft ónáttúrleg hljóð og væl þegar myrkt er orðið á þessum ásum. Reimleikinn er að kenna strák sem varð þar úti í hríð. Strákur þessi kom frá Ytrabakka og ætlaði eitthvað suður á bæi, en villtist og varð þarna úti. Honum er lýst svo að hann sé í prjónapeysu grárri með kastkétti á hausnum í snöggfelldum buxum og sokkana utan yfir buxurnar. Þegar hann sést er hann með selspart undir annari hendinni sem hann veifar að þeim sem hann vill hvekkja.

Aldrei svo ég hafi heyrt hafa orðið veruleg brögð að árásum hans nema einu sinni, því þá var hann nærri búinn að drepa mann og hefði gjört það hefði maðurinn ekki verið bæði snar og áræðinn.

Svo stóð á að vinnumaður frá Skriðulandi, Jón að nafni, réri á Syðrabakka eina vetrarvertíð. Þegar farið er frá Skriðulandi að Syðrabakka á vetrum er ætíð farið þvert yfir ásana og niður að Syðrabakka. Jón þessi var ætíð vanur að ganga heim á daginn þegar komið var að og fara niður eftir á kvöldin. Voru piltar oft að spyrja hann að hvort hann yrði aldrei var við manninn með selspartinn, en hann bað þá ekki að vera að fara með þessa bölvaða vitleysu; sagðist aldrei verða var við neitt og enginn draugur væri til. Eitt kvöld um veturinn var hjarn mikið og ágætt gangfæri og glaða tunglskin. Jón fór þá frá Skriðulandi um vökubyrjun eins og vant var; hafði hann broddstaf stóran og sterkan í hendi og matarpoka á öxl og hélt á leið að Syðrabakka. Þegar hann er kominn á miðja leið sér hann hvar maður stuttur og digur kom þar sunnan og ofan að og stefndi í veg fyrir hann. Sýndist honum það fyrst vera sjómaður úr Pálmholti er einnig var við róðra á Bakka, en þegar hann kom nær sá Jón hvers kyns var; var þar kominn stráksi og veifaði selspartinum yfir höfði sér. Þegar Jón sá þetta tók hann til fótanna allt hvað hann gat og strákur líka; leið eigi á löngu áður en strákur kemst fram fyrir Jón og bannar honum veginn veifandi að honum selspartinum. Þegar Jón sá það reyrir hann upp stafinn og hyggst að lambra á draugsa, en stafurinn óð í gegnum hann eins og reyk niður í hjarnið og brotnaði um þvert. Jón tekur nú til fótanna í annað sinn og hleypur annan krókinn suður en annan út og vildi komast fram hjá draugsa, en þess var enginn kostur því að hvar sem Jón bar að var draugsi jafnan fyrir; samt var hann ætíð meira fyrir sunnan hann en utan og sá Jón af því að hann myndi vilja koma sér utan við Syðrabakka og þar niður í sjó. Gengu svo leikar dálitla stund þangað til draugsi var kominn með Jón niður á sjávarbakkann. Sá þá Jón að ekki mátti svo búið standa og ekki var um gott að gjöra; hann væri þá dauður hvort sem væri. Tekur hann þá undir sig stökk og einhendir sér á drauginn, en þar varð engin fyrirstaða. Hleypur nú Jón slíkt sem fætur toga og kemst með illan leik sökum hræðslu og mæði heim að Syðrabakka og í sprettinum inn í baðstofu með stafbrotið í hendinni; kastaði hann sér upp í rúm án þess að tala orð og sofnaði og svaf til morguns. Sagði hann þá frá þessu og sýndi stafsbrotið til sannindamerkis.

Það hafa menn sem voru í baðstofunni þegar Jón kom um kvöldið sagt mér að aldrei hafi þeir séð æðislegri eður ógurlegri mann á ævi sinni; hann hafði verið blóðrauður og þrútinn í framan; augun höfðu ætlað út úr höfðinu og allt flakaði frá honum; berhöfðaður hafði hann verið og með stafbrotið í hendinni eins og áður er sagt.