Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Eiríkur góði

Úr Wikiheimild

Eirík góða vakti séra Þorvarður í Felli upp og sendi hann að Ljótsstöðum á Höfðaströnd út úr arfaþrasi. Drap draugurinn fyrstu nóttina allt fé bóndans á Ljótsstöðum eða að minnsta kosti allt í einu fjárhúsinu. Ásókti hann svo og kvaldi Ljótsstaðafólk unz einbeittur og jötunefldur maður frá öðrum bæ – ég ætla hann héti Jón Ásgrímsson – gerði sér þangað ferð og gisti þar. Tók hann á móti draugnum og glímdi við hann alla nóttina. Dofnaði draugurinn mjög við það, en maðurinn beið bana af. Draugur þessi kvaðst heita Eiríkur, hafa í lífinu verið valdsmaður og verið svo mildur að hann hefði fyrir þá skuld verið kallaður Eiríkur góði. Festist svo þetta nafn við drauginn; enda er hann nú á síðari árum meinlaus og smáskrýtinn. En alltaf fylgir hann Ljótsstaðaætt og enda öllum Höfðstrendingum. Hitt kann og að hafa komið fyrir að hann hafi slegizt í för með öðrum ferðamönnum sem hafa átt leið um Höfðaströndina og að hann hafi einhvörn tíma komið fram í Skagafjörð á undan Fljótamönnum; og mun af því tilefni sprottin saga sú að hann sé fylgidraugur Fljótamanna.