Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Ekki verður feigum forðað

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ekki verður feigum forðað

Svo er mælt að Brynjólfur biskup Sveinsson tjaldaði eitt sinn á ferðum sínum við árvað nokkuð. Áin hljóp mjög ofan og var óreið. Meðan sveinar biskups tjölduðu gekk hann þegjandi um gólf milli þeirra og árinnar og mælti síðan: „Stundin er komin; en manninn vantar.“ Þeir vissu ekki því hann mælti svo, en sáu skömmu síðar að maður nokkur kom og reið sem mest mátti og bar hann skjótt fram til árinnar þar þeir voru fyrir, og sáu þeir hann mundi ætla að ríða á ána. Báðu þeir hann ekki svo gjöra og mæltu: „Ófær er áin maður.“ Hann hikar ekki og ætlar að ríða á ána hvað sem þeir sögðu. Kallar biskup þá og segir: „Taki þið manninn piltar og haldið honum nauðgum.“ Þeir ráða til og draga manninn af baki, en hann brýzt um í höndum þeim og litlu síðar skynja þeir að fjörbrot eru á hann komin. Segir þá biskup að þeir taki vatn úr ánni og dreypi því á hann. Þetta gjöra þeir og þá dó hann.