Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Fyrirboðar ýmsir
Fyrirboðar ýmsir
Mér á þá eitthvað að bætast vikuna þá arna,“ hefi ég[1] heyrt margan segja þegar hann hnerrar á sunnudagsmorgni.
„Ég heyri eitthvað sem mér þykir betur, mig klæjar hægri augabrúnin,“ segja margir.
„Mér þykir eitthvað miður, mig klæjar verri (vinstri) augabrúnin,“ hefi ég líka oft heyrt.
„Ég smakka bráðum nýnæmi“ (eða: „ég á þá bráðum að smakka nýnæmi“) segja margir þegar þá klæjar um munninn.
„Það er þá einhver að nefna mig“ (eða: „hver skyldi vera að nefna mig?“) segja margir þegar þeir fá hiksta (sbr. um Daða í Snóksdal í Árbókunum).[2]
„Hann þurfti ekki að klæja eyrun fyrir því“ – hann fékk að heyra það – segja margir um leið og þeir segja frá hve skörulega þeir hafi sett ofan í við einhverja fyrir eitthvað.
Veggjatrítla. Þegar veggjatrítla heyrist veit það á skammlífi einhvers á bænum. – Ég hefi alls einu sinni heyrt til hennar (veggjatrítlu); var ég þá mjög ungur og var einsamall inni í rúmi mínu að morgni dags.
Ég hefi víst heyrt það bæði í Grímsey og Fljótum að þegar kind jarmar í húsi með heytugguna uppi í sér, þá er einhver kindin skammlíf í húsinu. – 8. febrúar 1847 sagði Jón vinnudrengur minn í Grímsey mér frá því að Eiðakolla (ær) hefði jarmað meðan hún var að éta, og sagði það mundi vita á kind skammlífa í húsinu. Á þetta lagði ég fremur lítinn trúnað. 19. marz drapst í húsinu gimbur sem Gullbrá var kölluð.
Það er sagt um Ólaf konung Tryggvason að hann hafi tekið af hálfar ástir og óskir allar.