Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Huldufólk á Reykjadalsheiði

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ásmundur segir mér að Rafn Ólafsson hafi sagt sér þessa sögu til sannindamerkis um það að til væri álfar; hafði Rafni verið sagt frá manninum sem sagan er um:

Einu sinni var maður að nafni Þorsteinn að leita að fé í kafniðaþoku á Reykjadalsheiði. Þegar hann hafði lengi gengið og ekki fundið féð villtist hann og vissi ekki hvar hann fór. Loks kom hann á hól einn háan og stóran sem hann þó ekki þekkti sig á. Samt ætlaði hann ekki að setjast þar að, heldur halda eitthvað áfram og það gjörði hann líka, en hvernig sem hann gekk kom hann einlægt á sama hólinn aftur; gekk svo þrisvar sinnum. Þegar hann kom þangað í þriðja sinni sá hann stórar dyr á hólnum og stóð kona heldur góðleg í dyrum úti. Hún bauð honum inn og þar að vera um nóttina því að bæði væri þokan og svo væri komið kvöld. Maðurinn þá það og var þar í hólnum um nóttina í góðu yfirlæti. Engan mann sá hann þar nema stúlku þá sem hafði boðið honum gistingu og aðra stúlku til sem var mikið illilegri. Um morg[un]inn eftir þegar maðurinn ætlaði að fara bað sú ljótari hann að staðnæmast þar hjá þeim í hólnum; en þegar hann vildi það ekki reiddist hún og sagði að hann skyldi þá bera þess menjar að hann hefði þar komið og sagði að héðan í frá skyldi hann hafa konubrjóst. Síðan steig hún ofan á stóru tána á vinstra fæti hans svo að hann sárkenndi til í fætinum. Síðan hvarf hún og sá hann hana ekki framar, en sú góðlegri bað hann að láta sig ekki gjalda illsku hinnar álfkonunnar og bað hann að segja ekki til þeirra í tuttugu og átta ár, en eftir þann tíma væri sér sama því þá myndi hún sjálf verða dauð, en hin myndi nú eiga skammt eftir lifað. Maðurinn hét henni því og hélt af stað og komst heim með illan leik sökum verkjar í fætinum sem huldukonan hafði stigið ofan á. Eftir það hafði hann ætíð konubrjóst; og eftir að honum batnaði í tánni – hann átti í henni heilt missiri – var hún einlægt þar á eftir breið og flöt eins og blað.