Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Huldufólkið í Norðfirði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Huldufólkið í Norðfirði

Kona ein í Norðfirði að nafni Guðrún Pétursdóttir var eitt sinn í hestaleit í þoku. Sá hún þá tvo menn ríða móti sér grám hestum afar stórum. Varð hún hrædd og fleygði sér niður og vafði svuntunni um höfuð sér. Lá hún stundarkorn og grét, en er hún stóð upp sá hún ekkert og fór heim. Eitt sinn um tvítugsaldur átti hún að sækja kýr. Á leið hennar voru þrír steinar og einn stærstur sem hún fór upp á að horfa til kúnna; studdist hún við prik sem hún hafði og stakkst það í gegnum torfuhaus sem var ofan [á] steininum. Fannst henni hann koma í loft, fannst henni ei annað fyrir verða þar til hann brotnaði við hendur henni, en hún hrökk aftur á bak. En þegar hún rankaði við sér lá hún í polli sem vanur var að standa þar uppi. Hún stóð upp, fann kýrnar og fór heim með þær. Um nóttina dreymdi hana konu sem kom og leiddi stúlku og var blámarin á henni kinnin. Hún sagði við hana: „Sjáðu hvernin þú fórst með dóttur mína í gærkvöld, þá þú barðir ofan bæinn minn. Verður verra úr því ef þú gjörir það oftar; gat ég gjört þér illt hefði ég viljað.“ Hvarf þá konan og þóktist hún sjá svip hennar. En hún kom ei síðan á steininn.