Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Hversdagsverk huldufólks

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hversdagsverk huldufólks

Mörg dæmi eru þess að menn hafa séð álfa eður einhverjar menjar þeirra.

Einu sinni sá kona að nafni Ingibjörg mjög falleg barnaföt breidd á stein þar sem ómögulegt var að nokkur maður hefði látið þau. Hún þorði samt ekki að skoða þau því að því fylgir óblessun ef menn snerta muni álfa.

Einu sinni sá kona að nafni Soffía mörg mjólkurtrog rísa upp við stein; var ómögulegt að nokkur maður hefði látið þau þar.

Oft hefir heyrzt strokkhljóð inn í steinum og klettum.

Stundum hafa ókunnugar kýr verið saman við heimakýr sem enginn hefir þekkt og sem enginn hefur vitað hvaðan hafa komið eða hvað af hefir orðið.

Einu sinni sá maður frammi í Hörgárdal stúlku bláklædda liggja sofandi á klettasnös nokkurri. Hann þekkti hana ekki og þegar hann vakti hana hvarf hún honum með öllu.

Einu sinni gengu piltar úr Málmey á Skagafirði niður að sjó kvöld eitt á vökunni. Þar voru bátar margir uppsettir. Þegar þeir komu niður að sjónum sáu þeir einn bát sem var settur upp dálítinn spöl frá hinum. Hann var töluvert frábrugðinn heimabátunum enda þekktu þeir hann ekki. Á meðan þeir voru að horfa á bátinn og ætluðu að fara að skoða hann sáu þeir hvar tveir menn komu þar utan fjörur. Þeir voru að tala saman og þegar þeir komu að bátunum fóru þeir eitthvað að dútla við bátinn sem var settur upp sérstakur og síðan fóru þeir að skoða hina bátana og tala saman um þá. En í þeim svifum hafa þeir víst orðið varir við Málmeyjarpiltana því að þeir þutu að bát sínum, settu hann fram og hurfu strax þegar hann var kominn á flot.