Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Jón Vermaður og tröllkonan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón vermaður og tröllkonan

Einu sinni fór maður einn af Norðurlandi til róðra suður á land ásamt fleirum öðrum. Maður þessi hét Jón og var heldur lítilmenni, en góðsamur og meinlaus. Þegar þeir félagar komu suður á fjöll skall á þá blindhríð. Varð Jón fljótt viðskila við samferðamenn sína og villtist svo hann vissi ei hvar hann fór. Kom hann loks eftir langa mæðu og mikið stríð í helli einn; þar var dimmt og draugalegt, en Jón hugsaði meira um magann en myrkrið. Þegar hann var kominn inn settist hann niður fram við hellismunnann, tók nestispoka sinn og tók að snæða. Þegar hann hafði etið um stund heyrði hann ýlfur mikið innar í hellinum og ólæti mikil. Þrífur hann þá tvo heila fiska og kastar inn í hellinn þangað sem honum heyrðist ýlfrið koma frá; hætti þá ýlfrið, en hann hélt áfram að snæða og þegar hann hafði lokið því ætlaði hann að leggjast til svefns því að hann var dasaður mjög eftir gönguna. En þá heyrði hann dyni mikla og dynki úti fyrir hellisdyrunum og því næst kom inn einhver skepna sem þrammaði þungan og kastaði af sér byrði mikilli eftir því sem honum virtist. Því næst heyrir Jón að þessi skepna segir: „Fussum svei! Fussum svei! Mannaþefur í helli mínum. Sá sem hér er inni skal fara sömu leiðina og þeir hafa fleiri farið.“ Jón þóttist þá vita að [þetta] væri tröllskessa og fór að verða smeykur. Þegar tröllskessan hafði sagt þetta þrammar hún innar í hellinn og þegar dálítil stund var liðin heyrir Jón að hún segir: „Engir af þeim sem hér hafa áður komið hafa gefið börnum mínum mat, en það hefir þú gert hver sem þú ert og skal þér ekki mein gjöra.“ Jón þóttist nú vita að hún meinti þessi orð til sín og gaf sig þá í ljós. Kveikti nú skessan ljós og heilsaði Jóni. Var hann þar í góðu yfirlæti hjá henni um nóttina.

Um morguninn var komið gott veður og vildi þá Jón halda leiðar sinnar. Áður hann fór gaf skessan honum öngul og einn hest með reiðtygjum. Síðan sagði hún honum að hann skyldi halda beint til sjóvar; þar myndi hann finna bát, á honum skyldi hann fara þvert yfir sjóinn sem var fjörður, og myndi hann þá koma að þeim bæ sem hann hefði ætlað sér í fyrstu. Hún sagði honum ennfremur að hann skyldi róa á bátnum um vertíðina og ekki nema við annan mann; væri bezt að hann hefði bóndann sem hann ætlaði til, á fari með sér. Hún sagði að hann skyldi skilja hest sinn eftir þar sem hann færi frá landi og þyrfti hann ekki að hugsa um hann framar; hann myndi verða kominn á sama stað aftur þegar vertíðin væri úti og annar hestur til sem hún sagðist ætlast til að hann færði sér á skreið. Jón lofaði því og hélt svo af stað. Þegar hann kom niður til sjóvar fann hann bátinn eftir tilvísun skessunnar. Síðan sleppti hann hesti sínum og sté í bátinn og réri yfir fjörðinn; kom hann þá einmitt þar að sem hann hafði ætlað að vera í verinu.

Fann hann nú bónda og bað hann vistar um vertíðina; var honum hún heimil. Ekki voru félagar hans þá komnir og komu þeir ekki fyr en tveimur dögum seinna. Jón réri nú um vorið á bát skessunnar og bóndi með honum. Öfluðu þeir manna bezt. Jón dró á öngulinn skessunaut þorsk þar sem aðrir drógu dauðan sjó.

Þegar vertíðin var úti fór Jón á bát sínum sömu leið og hann var kominn. Þegar hann lenti voru hestarnir þar komnir eins og skessan hafði sagt honum; síðan setti hann upp bátinn og klyfjaði báða hestana og hélt svo heim til skessu. Tók hún vel á móti honum og hafði hann hjá sér í góðu yfirlæti í nokkra daga. Þegar hann fór sagðist hún ekki vera búin að launa honum ennþá matargjöfina við börnin sín. Síðan gaf hún honum belti og vettlinga og sagði honum að í staðinn fyrir að fara heim þá skyldi hann nú fara á prestsetur sem hún tiltók; þar skyldi hann vera um nótt og þegar hann færi þá skyldi hann biðja dóttur prestsins að ganga með sér úr garði. Þegar þau væri svo komin út fyrir túngarðinn þá skyldi hann gefa henni beltið og vettlingana og setja hvorutveggja á hana og vita svo hvernig færi.

Síðan kvöddust þau með vinsemd; Jón þakkaði henni fyrir ráðleggingarnar og hélt leiðar sinnar og heim á prestsetrið. Fór þar allt eins og skessan hafði sagt: Jón var þar um nóttina og prestsdóttirin fylgdi honum úr garði. En þegar hann hafði spennt á hana beltið og látið á hana vettlingana brá svo við að hún fékk óslökkvandi ást til hans. Bað hún hann nú að koma heim með sér aftur og gjörði hann það góðfúslega því að bæði grunaði hann hvernig vera mundi og svo leizt honum dável á hana. Lauk svo málum að prestur gifti honum dóttur sína. Reisti hann þar bú, varð góður búhöldur og farsæll eiginmaður og bjó þar til elli. Lýkur svo þessari sögu.