Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Kreddur ýmsar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kreddur ýmsar

Oft hafa börn það til leiknis sér að henda grjóti ofan af hæðum, en það er hættulegt því ekki má vita nema álfar eða aðrar huldar verur verði fyrir steinum þeim sem fleygt er: því skal enginn henda svo steini að hann segi ekki áður hátt og skýrt:

„Hendi ég steini
engum að meini,
vari sig allir sem frá vilja fara,
nema sjálfur skollinn.“

Það er varlega gerandi að tala lengi í einu um drauga á sama stað eða í sama húsi, því það má „tala á reimleik“ með því og vofur hittast þar að sem mikið er um þær talað.

Aldrei á börnum að líðast að skrifa á snjó meðan þau þekkja ekki stafina og enginn skal skrifa neinar myndir sem hann þekkir ekki sjálfur því það geta orðið galdrastafir og þeir svo rammir að maður getur skrifað sig til skrattans.

Aldrei skal rífa upp músarholu eftir veturnætur; sá sem það gerir verður ólánsmaður.

Ekki má heldur rífa sundur kóngulóarvef því þá verður maður ólánsmaður.

Aldrei skal snara út dauðri mús um nótt því þá gerir ofviðri.

Aldrei skal heldur bera út kýrhildir um nótt ef kálfurinn á að lifa því hætt er við að eitthvað óhreint komi að hildunum og kálfurinn verði þess vegna ekki almennilegur eða heppnist ekki. Aldrei skal fleygja kálfsugunni þegar kýr ber, heldur láta hana á veggjarpall nálægt kúnni svo hún heppnist betur. Ekki skal heldur bera líknarbelginn úr fjósinu fyrr en eftir þrjár nætur, heldur hafa hann uppi yfir kúnni; það er og til þess að kýrin heppnist betur.

Aldrei skal gefa hundi gleypubein úr kind því það er kóngsson í álögum (sbr. konungsnef); því skal láta það á afvikinn stað og segja við það: „Svo sem ég frelsa þig frá hundskjafti, svo frelsa þú mig frá helvíti.“

Aldrei skal maður kyssa kind þó hann geri gælur við hana og þyki vænt um hana, því ef hann gerir það deyr kindin vonum bráðar.

Þar sem dragsúgur er í húsum vex oft gras úr veggjum og ræfri og lafir langt niður; hver sem slítur það að þarflausu verður ólánsmaður, en þeim sem tannverk hafa er óhætt að taka það og leggja við tönn sína og sofa með það og mun þá batna.

Ef kona syngur (raular) meðan hún mjólkar kú þá geldist kýrin.

Ekki má nefna ref eða tóu eftir sólarlag því þá bítur hún kind fyrir þeim sem það gerir.

Aldrei skal éta úlunseyru úr kind, því hver sem gerir það verður skrafinn.

Ekki skal éta hið þunna barð af þorskkinnfiski; sá sem það gerir verður lyginn.

Ekki skal heldur éta hinn svartleita díla á innra roðinu í þorskhöfðinu því það er fingurfar skolla er hann fór höndum um þorskinn.

Ekki skal éta mænu því þá fær maður bakverk.

Ekki skal taka á (útigangs)hrossum með berri hend fyrir miðjan vetur því það er hrossinu við hálfsmánaðar skorpu (aðrir segja útigöngu).

Ekki skal gefa barni nautkind að tannfé né nautsheila að éta því þá verður barnið heimskt.

Ekki skal þurrka úr augum sér með hönd sinni berri eða fingrum og ekki með neinum líkamans lim berum nema olnboganum; annars verður maður blindur.

Ekki skal horfa í sólmyrkva því hver sem það gerir verður síðan blindur.

Það ber við að tíkur eiga sjáandi hvolpa, og má ekki ala þá því innan þriggja nátta fer hver sá hvolpur ofan í jörðina og kemur upp aftur á sama stað og stund að þremur árum liðnum; fylgir honum þá sú ónáttúra að hver lifandi skepna sem hvolpurinn sér áður en hún sér hann fellur í sama vetfangi dauð niður. Hvolpinn skal því drepa nýgotinn á þann hátt að honum skal halda með töng í eldi og brenna hann á bersvæði, en standa áveður[s] við eldinn; öðruvísi verður hann ekki drepinn því sé honum fleygt í vatn fer hann þar eins niður í jörðina. Ef svo ber við að slíkur hvolpur er alinn og fer hann í jörð niður skal gera lítið hús yfir bæli því sem hann fór úr og þilja það innan með speglum; sér hann sig þá fyrst sjálfan er hann kemur upp og drepst þá.[1] Það ber og við að kettir eiga sjáandi kettlinga og er allt hið sama um þá að segja sem um hvolpana. Hvorki fæðast hvolpar né kettlingar sjáandi nema móðirin eigi tíu í einu. Hvorki skal snerta blindan hvolp né kettling, því margir hafa „góðar höndur“ (læknishöndur) svo að verkur flýr undan þar sem þeir fara höndum um, en ef þeir snerta blinda hrækind hafa þeir ekki framar góðar hendur; þó er það undantekning sem hér segir: Ef sá sem hefir góðar hendur strýkur um verk á feigum manni missir hann þenna eiginleika nema hann síðan annaðhvort strjúki lík hins sama manns eða hann strjúki þegar eftir um hund ef það er kona, en tík ef það er karlmaður sem strýkur. Forðast skal á allan hátt að hafa þrenninguna við hrækvikindi og því má hvorki hafa þrjá hunda á sama heimili né heldur gefa hundi þrjá spæni matar í einu, heldur einn tvo fjóra eða fleiri spæni matar í senn. En ekki má gefa þá spónatölu mönnum því þá „gerir maður mennina að hundum“ en „hundinn að manni“ ef honum eru gefnir þrír spænir. Ekki má heldur blása á hunda eða hrækvikindi því þá blæs maður á þau nokkru af þeim anda sem guð blés í öndverðu í nasir mannsins. Ekki má blása á hund né kött því þá „blæs maður guðsanda í hrækvikindi“.

Ekki má blanda saman vatni og hlandi á sunnudegi, því illir andar safnast að þeim bæ sem það er gert.

Oft hafa börn það til leiknis að leggja líknarbelg fyrir munn sér og sjúga hann inn, láta svo aftur munninn og snúa belginn svo saman að blaðra verði í munninum, taka þá út úr sér og herða á snúningnum þangað til blaðran springur. Þetta er illt að gera því það skemmtir skrattanum.

Hvorki má maður spila né kveðast á við sjálfan sig því það skemmtir skrattanum.

Ef menn spila alla jólanóttina, kemur skrattinn í spilin þegar líður miðnættið og því hafa þá stundum orðið tveir tígulkóngarnir í alkorti.

Hver sem mígur í hreint vatn deyr úr þorsta.

Hver sem hefir sokkana sína undir höfðinu verður minnislaus.

Ekki má ganga út með svart fat á prjónum eftir veturnætur hversu gott sem veður er því þá gerir illviðri á eftir.

Ekki má grafa murur eða stinga jörð þó þítt sé fyrir sumarmál, annars kemur svo mikið frost að klaki verður jafndjúpur og stungið er.

Ef svo er að orði komizt að ljósið sé drepið þegar það er slökkt eða það drepist þegar það deyr þá skemmtir það skrattanum.

Ef hrútskrof er hengt í eldhús rýrnar það mjög um brundtíðina nema það sé hengt upp á hækilbeinunum (konungsnefjunum) eða ærkrof sé hengt á móti því.

Ef fylfullri meri er gefið volgt fjósmoð lætur hún fylinu.

Ef maður réttir eitthvað yfir skip verður það ágjöfult.

Ef skip er skorðað með fiski í verður það ofhlaðið af sama kyns fiski.

Ef sungið er á sjó dragast að illhveli.

Ef maður borðar kindareyra með öðru marki en sínu eigin verður hann sauðaþjófur og leggst á markið sem hann át.

Ef maður teygir sig eftir máltíð eða lestur þá verður maður latur.

Ef stúlka neitar þremur biðlum hverjum eftir annan fær hún varla góðan mann.

Ekki má hafa svarta ull í hnút á varpi eða saum á skó því þá villist sá sem skóinn hefir.

Ef maður sefur á sokkum sínum undir höfðinu verður [hann] minnislaus.

Ef börn leika sér að því að gera eldglæringar í myrkri eða kveikja á viðaröngum og bera brandana fram í myrkrið míga þau undir næstu nótt.

Þegar maður sker sig og bindur um þá stendur ekki á sama hvernig bandið er litt, því grátt græðir, svart særir, hvítt gerir hvorugt, en mórautt myrðir.

Ef skorið er neðan af tagli á fylfullri meri þá verður folaldið taglæta. Eins ef skorið er neðan af hala á kálffullri kú verður kálfurinn ætinn.

Ef maður gleymir skornum bita sem maður hefir ætlað sér að borða á maður einhvern svangan kunningja.

Ef maður biður um seinasta bita annars vill sá manninn feigan sem um bitann biður.

Ef maður er hræddur um að draumur sinn boði eitthvað illt skal segja hann jarðföstum steini; kemur hann þá ekki fram.

Sá sem er fram úr hófi myrkfælinn og huglaus skal taka hauskúpu af manni þegar grafið er, láta rigna í hana og drekka það og mun hann verða hugaður.

Þegar kind er slátrað skal sá sem það gerir ávallt sletta höfðinu við strjúpann aftur og mæla fyrir munni sér: „Guð uppveki aðra og gefi þeim sem átti;“ mun þá eigandanum bætast kind aftur.

Sá sem vill verða gamall skal smíða eða láta smíða líkkistu sína í lifanda lífi og mun hann ekki deyja svo fljótt.

Veðrið á brúðkaupsdag hjóna sýnir gæfulán þeirra, en næsta dag eftir samlyndi þeirra.

Þeim sem hnerrar fastandi þrjá hnerra á sunnudagsmorgni gefst eitthvað þá viku.

Þegar maður hnerrar yfir mat sínum boðar það gestakomu; aðrir segja að það sé komið undir aldri mannsins, því:

Elzti (hnerrar) mann fleiri,
miðlungur mann frá borði,
yngsti (hnerrar) matmeiri.

Þegar mann klæjar hökuna smakkar hann nýnæmi. („Ekki er það heima sem á höku gengur.“)

Það er víða siður þegar kind er slátrað að láta flagbrjóskið í blóðið; sá sem fær það í blóðmörssneiðinni sinni í fyrsta sinn þegar blóðmör er gefinn á hausti á það víst að missa enga kind vetrarlangt og þó hann vanti kind á heimtir mun hún koma.

Sjaldan geispar einn þegar fleiri eru nema feigur sé eða fátt á milli.

Þegar mann klæjar vinstri augabrún fellur manni eitthvað í vil, því vinstri er vina (vildar) brún. Þegar mann klæjar hægri brún mun maður hryggjast því „hægri er harmabrún“.

Á illt veit ef ofarlega klæjar (Njála).

Enginn skyldi illt mark á andliti taka.

Ef maður fer óviljandi í eitthvert fat sitt öfugt t. d. ef hællinn er fram á sokknum, opið aftur á skyrtunni o. s. frv., gengur manni eitthvað á móti þann dag.

Þegar maður fær aukinn skó á tánni gefst manni eitthvað meðan hann ber þann skó á fæti.

Ef neisti fer beint niður úr ljósi er kallað að „gestur fari úr ljósinu“ og boðar það gestakomu.

Þegar hundur liggur aflangur, teygir fram framlappirnar og leggur trýnið fram á þær þá býður hann gestum, en ef hann leggur trýnið út af öðru hvoru megin kemur einhver ófrómur.

Þegar köttur situr í hrauk og setur upp aðra afturlöppina „setur hún upp gestaspjót“ og veit það á gestakomu.

Þegar köttur rífur tré veit á illviðri. Þegar köttur gnýr fæti upp yfir eyrað (þvær sér upp yfir eyrað) boðar það hláku og eins ef kisa sleikir sig.

Þegar mann klæjar bakið („sækir í bakið á manni“) venju fremur mun maður svitna við einhverja óvænta fyrirhöfn, helzt bera óvænta byrði.

Ef manni fæðast fleiri hrútar en gimbrar fyrsta búskaparárið verður sá mikill fjármaður.

Ef maður missir hrút fyrstan kinda á ári mun sá missa fleiri kindur það ár.

Ef manni fæðist kind með marki skal hann taka það fyrir fjármark sitt og mun það verða happasælt.

Þegar köttur sefur á heilann (stingur hausnum inn undir sig) veit það á kulda.

Skírdagur og þó heldur föstudagurinn langi eru merkisdagar upp á sauðburðartímann (vorið).

Þegar mús er fleygt kemur vindur úr þeirri átt innan skamms sem henni var fleygt í.

Ef menn höfða fisk á sjó og fleygja út höfðunum kemur vindur úr sömu átt sem höfðunum var fleygt í.

Trúðu aldrei vestandögg né vetrarþoku, þó ekki sé nema ein nótt til sumars.

Þegar blátt er að sjá í holur í nýjum snjó veit það á hláku; eins ef loft er venju fremur bláleitt.

Þegar rjúpur koma snemma til byggða á haustum veit það á harða veðráttu.

Þegar snjótittlingar koma í garða, flokka sig og tísta mjög veit það á hart.

Þegar menn eru venju fremur andberir veit á kulda.

Þegar mann klæjar tærnar venju fremur mun brátt verða vot jörð svo maður vaði.

Oftast fer af vetrargrænkan, þ. e. það kemur oft því meira frost um og eftir sumarmál sem grænna er orðið áður.

Ef veður breytist upp úr páskunum verður sú veðurreynd til hvítasunnu.

Fyrsti sunnudagur í sumri er merkisdagur upp a túnasláttinn, þ. e. það viðrar eins á túnaslættinum og á þeim degi.

Mánudagurinn fyrsti í sumri er merkisdagur upp á engjasláttinn.

Ægidíusmessa er merkisdagur upp á haustið.

Ef veður breytist með höfuðdegi helzt það fram yfir réttir.

Ef veður breytist þá tungl er fimm nátta helzt það tunglið út.

Eins og fyrsta vetrartunglið er, eins verða þrjú hin fyrstu.

Ef veður breytist með allra heilagra messu helzt sú veðurreynd lengi fram eftir vetri.

Ef veður breytist með útgöngu imbruvikunnar helzt sú veðurreynd til annarar imbruviku.

Eftir skruggur mun veður breytast innan þriggja daga og haldast hálfan mánuð, þá koma skruggur aftur.

Þegar útigangshestar liggja fyrir miðjan vetur, veit á hálfsmánaðar skorpu.

Eftir því hvort fyrsti vetrarsnjórinn liggur lengi á eða stutt fer um fleiri snjóa þann vetur.

Ef fyrsta vetrarhlákan verður endaslepp munu fleiri verða það þann vetur.

Oftast tekur úr sumarfrostið nema illt sé að.

Þegar snjóveltur eru veit á hálfsmánaðarskorpu (snjóveltur eru þegar snjór fýkur í vindla á sléttri jörð).

Þeir menn eru enn til sem taka mark á vetrarbrautinni; byrja þeir á austurenda hennar og rekja hana vestur eftir. Þar sem hún er þykk og glögg verða harðir kaflar á vetrinum, en góðir þar sem hún sést ógjörla. En ekki er að marka vetrarbrautina nema milli messna, þ. e. Mikkaelismessu og allra heilagra messu.

Það veit ávallt á illt ef halastjörnur sjást, t. d. styrjöld, drepsóttir eða harðæri.

Þegar hval rekur fiskast ekki í næstu veiðistöðum næsta vetur.

Þegar maður dregur stórdrátt úr sjó, helzt lúðu, skal þegar ausa skipið á sama borð og hún kom inn, þá fæst önnur til.

Ef svarta hliðin kemur upp á lúðunni spáir hún að önnur fáist.

Þegar skata dregst skal skera halann af henni í fjóra hluti og kasta út af skipinu í kross, þá fæst önnur.

Ef fiskur dregst með læstan munn veit það á að það skip verður mest í vörum að kvöldi. Þá er munnurinn læstur, ef öngullinn stendur í gegnum hann.

Ef fiskakóngur (þorskur með hnút á nefi) dregst, boðar hið sama.

Það er trú sjómanna í Grímsey að ef hámeri er dregin megi hún ekki sjá yfir alla á bátnum því annars sjái hún einhvern feigan.

Sá sem dregur hámeri honum bregzt ekki afli það árið.

Sá sem fær bæklaðan fisk (kryppling) á ófengið eitt hundrað á vertíðinni.

Þú skalt aldrei kemba þér í rúmi þínu, því þá muntu draga konu þína (eða mann þinn) á hárinu; aðrir segja það stytti lífið.

Þú skalt aldrei skera svo af nöglum þínum að þú látir halda sér heilt yfir um þvert framan af þeim, heldur skaltu skera það í þrjá parta; annars tekur kölski það og smíðar sér úr því skip og siglir á því eftir sálu þinni (sjá um Naglfara í Eddu).

„Náttskornar (nærskornar?) neglur og nýþvegið hár hefir mörgum ófeigum (!?) manni að bana orðið.“

Þegar þú járnar hest skaltu járna fæturna eftir sólarhring (nl. fyrst hægri framfót, þá hægri afturfót, þá vinstri afturfót, þá vinstri framfót, eða eftir líkri röð); þá gengur ferðin vel. Ef þú járnar móti sólarhring þá gengur ferðin andhælis. „Svo gengur ferð sem fyrsti nagli.“

Eldakona skal hræra í grautarpotti eftir sólargangi, en ekki móti, þá verður grauturinn betri.

Ekki megu matseljur plokka af skán þá sem kemur utan á mjólkurausu þeirra á sumrum, því þá geldist málnytufénaður. (Raunar dettur skánin sjálfkrafa af ef málnytufénaður geldist, því hefir þetta þótt fara saman.)

Þegar menn fara í útver til sjóróðra skal ekkert hreyfa sem þeir skilja eftir heima og ekki svo mikið sem búa um rúmin þeirra fyrr en að þrem nóttum liðnum; annars verður þeim ekki afturkomu auðið.

Ekkert skal bæta eða sauma af fatnaði sjómanna á sunnudegi, því þá rekur þá ekki upp ef þeir drukkna.

Aldrei skal bera bækur út til þerris þegar menn eru á sjó því þá mun oftast koma stormur.

Aldrei skal breiða þóf út til þerris sama dag og það er þæft því þá deyr einhvur sauðkind á bænum.

Þegar maður smíðar lár deyr sauðkind á bænum.

Þegar kýr er mjólkuð fyrsta sinn eftir burð skal bera fötuna með mjólkinni í kross yfir hana svo ekki komi óhreint nærri henni.

Þegar kýr fær slen eða heyleiða eftir burð skal stela tuggu handa henni frá þeim bæ sem ekki á land að næst, eða ef þangað er yfir læk að fara eða rennanda vatn.

Þegar farið er með hest í langferð skal klippa eða bika kross á lend hans svo hann sligist ekki af óhreinum rökum.

Aldrei skal brjóta sauðarlegg því þá fótbrotnar einhvur kindin (sjá hafur Þórs í Eddu).

Aldrei skal tálga fast tré í húsi.

Sá sem faðmar dyr á húsi því sem menn eru inn í vill einhvurn þeirra feigan.

Þú skalt ekki vega þig því þá fer þér ekki fram þaðan af nema þú haldir því á að vega þig við og við; og ekki skaltu heldur mæla hæð þína, þú lengist þá ekki meir.

Þegar þú sér sumartunglið í fyrsta sinn skaltu þegja þangað til einhvur yrðir á þig fyrri; það sem fyrst er sagt við þig er þér spá um það hvurnig sumarið verður þér í hag; það heitir „að anza einum í sumartunglinu“.

Ef frost er nóttina fyrir sumardaginn fyrsta segja konur að það verði kostagóð málnyta það sumar, því frosið hafi saman sumarið og veturinn.

Ef þú hefir viðbjóð við að smakka á annars manns mat án þess að vita orsök til þess, boðar að hann sé feigur.

„Sjaldan sýður á gólfi feigs manns matur.“

Ef klukknahljóð kemur fyrir eyru þín, ef moldarlykt leggur í nasir þínar, ef þig kitlar í tungunni, boðar að þú heyrir mannslát áður en langt líður.

  1. Í Árnessýslu skal vera neðanjarðarhvolpur og kettlingur og þeirra von upp á öðru ári. [Hdr.]