Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Prédikur sr. Hallgríms

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Prédikun sr. Hallgríms

Þegar síra Hallgrímur – sálmaskáldið góða – var vígður til prests voru það ýmsir af félögum hans sem öfunduðu hann sökum greindar og kunnáttu hans. Þeir vissu að síra Hallgrímur átti að halda ræðu í dómkirkjunni og vildu með einhverju móti láta hann verða sér til skammar. Þeir báðu hann því að byrja ræðu sína þannig: „Mér stendur!“ Síra Hallgrímur var lengi tregur til, en þó lét hann til leiðast um síðir. Hugðu nú öfundarmenn hans gott til því að þeir bjuggust sjálfsagt við að hann yrði sér til skammar og myndi verða gjörður rækur fyrir ótilhlýðileg orð í guðshúsi. Þegar síra Hallgrímur steig í stólinn byrjar hann: „Mér stendur!“ Þá fór nú sumum ekki að lítast á blikuna því að hann stanzaði stundarkorn; þá sagði hann: „Æ, mér stendur!“ Þá var fast komið að því að biskup skipaði honum að hætta, en allur söfnuðurinn brosti eða hló. En í þeim svifum segir síra Hallgrímur: „Ó, mér stendur ógn af mínum syndum!“ Síðan hélt hann svo hjartnæma ræðu út af þessum texta að flestir í kirkjunni viknuðu nema öfundarmenn hans; þeir bitu á jaxlinn og bölvuðu í hljóði.