Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Próventukarlinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Próventukarlinn

Þegar síra Jón Jónsson „lærði“[1] var prestur til Grundarþinga í Eyjafirði og bjó í Möðrufelli hafði hann próventukarl einn er Jóhannes hét; karl þessi átti bæði fasteignir og peninga. Afhenti hann presti fasteignirnar í lifanda lífi, en peningana fékk hann honum aldrei. Karlinn bjó einn í húsi fram í bænum skammt frá baðstofu og þar fékk enginn inn að koma annar en hann sjálfur og þegar hann dó var spesíunum og ríxdölunum raðað um allt rúmið undir rekkjuvoðunum. Um þær mundir sem Jóhannes dó bjó Árni, kallaður Æsustaða-Árni, á Grund og sömu nóttina sem Jóhannes dó dreymdi Árna að hann kæmi til sín og heimtaði með harðri hendi dýnuna sína. Árni þóttist enga dýnu hafa því hann vissi ekki til að hann hefði nokkra dýnu sem Jóhannes ætti. Jóhannes varð því verri og sagðist vilja fá hana undireins, en Árni þverneitaði og sagðist enga dýnu hafa. Lauk svo að Jóhannes fór, en Árni svaf það sem eftir var næturinnar. Daginn eftir fréttist lát Jóhannesar; fór hann þá að spurja eftir því hvort þar (á Grund) væri nokkur dýna sem Jóhannes í Möðrufelli hefði átt og kom það þá upp að Árni hafði sofið á dýnunni. Árni sendi hana sem skjótast upp að Möðrufelli og varð hann ekki var við Jóhannes framar.

Eftir að Jóhannes dó þótti mönnum hann fara að gjörast hávaðasamur í skála sínum; heyrðist þaðan á kvöldum og um nætur skrölt og peningahringl og öll ill læti. Kvað svo rammt að því að fólkið í Möðrufelli gat ekki sofið fyrir ólátunum. Fór fólkið að kvarta yfir því við síra Jón, en hann lét fátt yfir. Eitt kvöld þegar fólk var flest háttað í Möðrufelli og Jóhannes gamli var sem háværastur, af dauðum mönnum að vera, vatt síra Jóni fram í baðstofu; bannaði hann öllu fólki að skyggnast um hagi sína þangað til hann kæmi aftur. Síðan fór hann fram. Uxu þá ólætin um allan helming; en úr skálanum færðust þau fram í göngin, úr göngunum fram í bæjardyrnar, úr bæjardyrunum út á hlað og svo vissi enginn um þá meir. En um morguninn kom prestur heim dasaður mjög og meðhjálparinn sem bjó í Holti með honum. Holt er næsti bær fyrir ofan Grund. Hafði prestur komið þangað um fótaferðatíma neðan frá Grund berhálsaður og berhöfðaður (enginn vissi hverra erinda) og beðið meðhjálparann að fylgja sér heim að Möðrufelli og það hafði hann gjört. Seinna fannst hálsklútur hans neðan við völlinn á Möðrufelli, en húfan sunnan við túnið í Holti.

Enginn vissi hvað þeim Jóhannesi og presti hefir farið á milli, en aldrei varð hans vart framar hvorki til orða eður gjörða.

  1. Jón Jónsson lærði (1783-1846) var prestur til Grundarþinga 1795-1839.