Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Séra Þorlákur á Ósi

Úr Wikiheimild

Séra Þorlákur skáld[1] er var prófastur í Eyjafjarðarprófastsdæmi bjó á Ósi í Möðruvallaklausturssókn. Hann var forspár um marga hluti. Þessar sögur hefi ég heyrt um hann:

Hvammsfólkið. Einu sinni var séra Þorlákur á ferð suður að Möðruvallakirkju um vor; var vinnumaður hans með honum. Þegar þeir komu suður á Möðruvallanesið segir síra Þorlákur upp úr þurru við vinnumanninn: „Hverir ríða þarna í hóp?“ Vinnumaður spyr: „Hvar? Ég sé enga menn.“ „Jú,“ segir prestur, „mér sýnist það vera allt Hvammsfólkið og ríða þrír á einum hesti, en þó bil á milli; en aftur ríða aðrir þrír sinn á hverjum hesti og allt fer suður að Möðruvöllum.“ Þetta kom fram sem prestur sagði: Það dó allt heimilisfólkið frá Hvammi um sumarið sex að tölu og voru þrjú lík flutt á sama hestinum, en sitt í hvert skipti; en hin líkin þrjú voru flutt sitt á hvorum hesti.

Snorri. Einu sinni var drengur hjá síra Þorláki er Snorri hét; kvað prófastur eitt sinn við hann vísu þessa:

Vizkuhraður velmetinn
vestur í Sýrdalsvogi
alskinnaður útróinn
yngismaður Snorri minn.

Þessi vísa halda menn að muni hafa verið fyrirboði fyrir því að Snorri þessi drukknaði í þessum Sýrdalsvogum; þeir eru á milli Hvanndala og Ólafsfjarðar. Var þá Snorri orðinn fulltíða maður og farinn að búa á Syðri-Reistará.

„Og allt út á Eyri“. Einu sinni kom síra Þorlákur úr visitazíuferð sinni framan úr Eyjafirði og fylgdarmaður með honum. Þegar þeir ríða um fjöruna þar sem kaupstaðurinn Akureyri er nú – þar var þá aðeins eitt hús, konungsbúðin – segir prófastur upp úr þurru við fylgdarmanninn: „Mikil er þessi bygging; og allt út á Eyri (nl. Oddeyri).“ Þetta er að sumu leyti komið fram. Reyndar eru nú sem stendur (1886) miklu fleiri hús á Akureyri en Oddeyri, en út lítur fyrir að hús muni verða fleiri á Oddeyri með tímanum því að bygging er hætt á Akureyri að mestu, en á Oddeyri fjölga hús ár frá ári.

  1. Þorlákur Þórarinsson skáld (1711-1773) var prestur til Möðruvallaþinga frá 1745 til dauðadags.