Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Séra Magnús á Tjörn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Síra Magnús Einarsson sálmaskáld á Tjörn í Svarfaðardal var álitinn kraftaskáld.

Einu sinni kom Jón læknir Pétursson að heimsækja hann því að þeir voru fornkunningjar, Jón og síra Magnús.[1] Síra Magnús tók Jóni vel og bauð honum inn; var settur fyrir hann beini í stofu og át síra Magnús þar með honum. Jón sá að stúlka sú sem bar á borð (það var ráðskona síra Magnúsar) var ólétt og segir í grannleysi: „Átt þú það sem hún ber undir beltinu þessi, lagsmaður?“ Prestur svarar því engu, en heldur áfram að eta og skrafa eins og ekkert hafi verið. Svo var Jón þar um nóttina í bezta yfirlæti. Morguninn eftir fer prestur að sýna honum bæinn sem hann hafði þá nýbyggt og spyr hann þegar búið er hvernin honum lítist á byggingu sína. „Vel,“ segir Jón; „en,“ bætti hann við í grannleysi, „mér sýnast dyrnar vera heldur þröngar fyrir ólétta konu að ganga um.“ Prestur svarar því engu heldur. En þegar Jón var að fara og var setztur á bak gekk síra Magnus að hesti hans og sagði:

„Þína komu þakka ég skammt
þó ég sé haldinn linur;
til ólukku sé þér samt
sérhvert sporið, vinur.
Ógæfan þér verði vís,
vittu hvað ég segi:
lukkan bráðni eins og ís
upp frá þessum degi.
Brigzlin þungu sjái sá
sem að öllu hyggur
og hefti tungu þína þá
þegar mest á liggur.“

Jón gaf þessu lítinn gaum, en hélt af stað. Þegar hann fór niður hlaðbrekkuna datt hestur hans og fótbrotnaði. Þá fór Jón að gruna hvernig í öllu lægi, sneri heim aftur og bað prest fyrirgefningar. Sagðist þá síra Magnús ekki geta tekið það aftur þó hann vildi; en sagði þó að ekki mundi eins mikið kveða að heiftyrðunum og til hefði verið tekið í vísunum.

Einu sinni vakti Guðbrandur, kallaður Galdra-Brandur (hann var langafi Þórðar læknis sem dó á Akureyri[2]), á Fljótsbakka fyrir austan upp draug, en gat ekki ráðið við hann eftir þörfum sínum svo hann sendi hann til síra Magnúsar og ætlaðist til að hann setti draugsa niður fyrir sig. Síra Magnús sá þegar draugsi kom og vissi um leið hvernig á öllu stóð. Segir hann þá:

„Hér hefurðu' ei að gjöra grand
Guð því hjá mér stendur;
farðu' aftur og finndu' hann Brand,
frá honum ertu sendur.“

Þegar draugsi heyrði þessa kveðju snéri hann við og heim til Brands og fylgdi honum alla ævi upp frá því.


  1. Magnús Einarsson (1734-1794) var prestur á Tjörn frá 1769 til æviloka. Jón læknir Pétursson (1733-1801) bjó í Viðvík í Skagafirði.
  2. Átt er við Þórð lækni Tómasson (1837-1873).