Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Síra Hallgrímur og draugurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Síra Hallgrímur og draugurinn

Þegar síra Hallgrímur var á Hvalsnesi og fór um næturtíma ofan á Heiði mætti honum draugur, og starði hvor á annan um stund. Þá stefjaði draugurinn á prestinn og mælti:

„Hvaðan komstú að hitta mig
hérna ofan af grandanum?
Sendur var ég að sækja þig
frá sjálfum höfuðfjandanum.“

Þá kvað síra Hallgrímur á móti:

„Þú hefir ekki hót með mig
sem helgum var gefinn andanum.
Svo búinn aftur sendi ég þig
sjálfum höfuðfjandanum.“