Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Sýn Gunnlaugs Briems

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sýn Gunnlaugs Briems

Mamma segir mér[1] að þegar afi hennar Gunnlögur Briem[2] hafi verið í Kaupmannahöfn þá hafi hann með engu móti getað sofnað eitt kvöld. Reyndi hann mikið til þess, en tókst ekki. Hann var búinn að slökkva svo dimmt var í herberginu. Einu sinni varð honum litið upp á þilið ofan við rúmið og sá hann þar dálítinn glampa eður birtu. Í miðjum glampanum sá hann glöggt mynd eins hins bezta vinar síns er þá var á Íslandi. Hann horfði á hana dálitla stund þangað til allt hvarf. Þetta þókti honum kynlegt og setti því á sig stund og dag. Skömmu seinna fékk hann bréf frá Íslandi og þar í var honum sagt lát vinar hans. Hafði það alveg borið upp á sömu stund og hann sá myndina.

  1. Þ. e. Guðmundi á Hraunum Davíðssyni (á Hofi Guðmundssonar), en móðir hans var Sigríður Ólafsdóttir Briem.
  2. Gunnlaugur Briem (1773-1834) sýslumaður á Grund dvaldist í Kaupmannahöfn 1788-1798.