Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Saga af Hallgrími Högnasyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Saga af Hallgrími Högnasyni

Högni hét maður er bjó á Guðnabakka í Borgarfirði. Hallgrímur hét sonur hans. En eftir að Högni fluttist frá Guðnabakka var Hallgrímur sonur hans vinnumaður hjá bónda þeim er bjó á Guðnabakka næst eftir að Högni var þar. Bóndi sá hét Jón Helgason frá Steinum, en Guðrún kona hans.

Svo bar við að Hallgrímur Högnason gekk að fé á föstudaginn fyrstan í vetri; sá hann að stúlka kom á móti honum frá klettabelti einu, sem mörg eru í Guðnabakkalandi. Þegar þau fundust heilsaði hún honum með nafni; hann tók kveðju hennar, þóktist hann þó finna hjá sér nokkurn viðbjóð við henni. Beiddi hún þá Hallgrím að fara til sín, en hvernig þeim fóru orð í þetta skipti er ei tilgreint.

Að þrem vikum liðnum þá Hallgrímur gekk að fé kom stúlka þessi til Hallgríms og heilsaði Hallgrímur henni; þá sagði hún: „Það er mikið hvað þú ert nú kompanlegur.“ Hallgrímur kvaðst eigi vera það framar venju og var mjög stuttur í svari, en spyr hana þó að heiti, en það sagði hún eigi, en segir: „Sá er okkar munur að ég þarf eigi að spyrja þig að heiti, þú ert alkunnur og ertu hér oft á ferðum.“ Nú kveðst Hallgrímur verða enn fálátari. Þá hefur hún til máls á því er hún vék síðast frá, nl. að biðja hann að fara til sín og það strax fara með sér. Hallgrímur þverneitar því og eftir mikla ásókn hverfur hún, en hét honum að finna hann síðar.

Í þriðja skipti að þrem vikum liðnum þá Hallgrímur var að fé kom stúlka hans til hans í sama stað og áður. Gekk Hallgrímur við lítið prik og studdi sig við það; sér hann þá eigi stúlkuna fyrr en hún er komin að Hallgrími; hann heilsar henni. Hún spyr hvert hann muni erindi sitt þá er þau fundust síðast. Hallgrímur gaf sig fátt að því, en hún biður hann nú sem fyrr á allar lundir að fara með sér og vera hjá sér, en hann þverneitar. Þá tekur hún í fingurinn á honum eigi ofar en um nöglina. Hann vildi losa fingurinn (vísifingurinn), en gat eigi. Reyndi hann þá að hrinda henni frá sér, en það fór á sömu leið; hún stóð fast fyrir og mælti: „Þegar þú verður þannig við bón minni þá furðaðu þig eigi á þó þú kunnir að verða var um einhverja litla bendingu frá mér, ekki það þig dragi hún.“ Sleppti hún þá og hvarf svo fljótt að Hallgrímur sá hana eigi ganga burtu. Gaf Hallgrímur sig eigi að þessu, en gekk að fénu og síðan heim. Stuttum tíma eftir þetta gekk Hallgrímur að fé eins og vandi hans var til. Lét hann féð liggja við opin fjárhúsin og voru þau langt nokkuð frá bænum. Þegar hann kom að húsunum leit hann inn í eitt þeirra; var þá nokkuð meira en hálfbjart af degi. En staðinn fyrir sauðkind sá hann innar við gaflaðið hryllilega ljóta sjón; var það skrímsl sem hafði armamyndir og sá hann það eigi utan skammt ofan fyrir þessar armamyndir. Glyrnur þess þókti honum viðbjóðslegastar og óútmálanlega ljótar. Hann leið þegar niður af hræðslu og vissi eigi hversu lengi hann hafði þar legið. Einhvern tíma um nóttina vaknaði hann við og komst heim. Eigi er þess getið að hann segði frá þessum atburði, en eigi fór hann á fætur nokkra daga. Þegar hann fór á fætur aftur mátti hann hvorki í björtu né dimmu einn vera og stundum varð að vaka um nætur. Húsbændum hans féll mjög um þetta. Allt um það fór Hallgrímur ganga að fé, en þó með fylgd.

Það bar til á nýársdag þenna vetur (1822) að Hallgrímur gekk til kirkju að Síðumúla með öðru fólki, en við kirkjuna var einn utansóknarmaður; hann sá vofu þá er Hallgrímur hafði séð í fjárhúsinu og fylgdi hún honum; hafði þessi maður séð glöggt vofuna og sá hann að hún fylgdi fast Hallgrími. Eitt sinn á vetri þessum þá er fásinnan var mest á Hallgrími vildi svo til að konan var í fjósi að mjólka kýr. Skjöldótta kú átti hún er var mjög góð mjólkurkýr og þá nýborin. Þegar konan setti fötuna frá sér sagði bóndinn: „Ævinlega dregur um Skjöldutetur.“ Konan svaraði: „En ég meina ég vildi þó vinna til að missa mjólkina úr henni Skjöldu og hann Hallgrímur væri orðinn almennilegur og þó eigi væri nema til morguns.“ Þá sakaði Hallgrím ekkert nóttina eftir, en kýrin var nytlaus um morguninn, en eigi sakaði kúna meir. En eigi dugði Hallgrími þetta framar.

Einhverju sinni seint um veturinn þá er Hallgrímur var með fásinnu og aðsókn að vanda dreymdi Hallgrím eina þriðjudagsnótt[1] að hálfvaxin stúlka kom til hans og talaði til hans með nafni. Hann þóttist gegna og spyrja hvert hún vildi sér nokkuð; hún játar því og mælti: „Móðir mín biður þig finna sig á morgun og biður hún þig fara til fjárins fyrr en þú ert vanur og vera einn.“ Hann lofar því ef sig saki eigi, en kvaðst þó eigi vita hvar móðir hennar væri; þá mælti stúlkan: „Þér skal verða leiðbeint þangað.“ Þá þóktist hann spyrja: „Liggur henni mikið á því?“ „Ekkert minna en lífið,“ svaraði hún. Hann þóktist segja: „Það fer valla ver fyrir mér en komið er þó ég verði við bón þinni.“ „Heldur mun þér það góðu en illu launað,“ mælti hún og að því skildu þau. Vaknaði hann þá brátt og hugsaði draum sinn. Um morguninn kvaðst hann vilja hætta á að fara einn til fjársins; fór þá Hallgrímur einn litlu eftir hádegi. Þegar hann var kominn spölkorn lengra en stúlkan hafði fundið hann fyrr kom frá öðru bergi stúlka sú er hann [hafði] dreymt um nóttina. Þegar þau fundust spurði hún hvert hann ætli að finna móður sína; hann kvað svo vera. „Þú kemur þá með mér,“ mælti hún. Snúa þau að berginu og sá hann þá almennilegan bæ þar sem bergið átti að vera. Þegar þau komu á hlaðið tók hún í hönd honum. Bæjardyrnar snéru mót norðri. Hún leiddi hann til vesturs um göng er mjög voru dimm. Síðan vék hún sér aftur til suðurs og komu þar í hús er honum þótti vera baðstofa og var gengið í stafn á henni. Rúm voru til beggja hliða, en eigi sá hann þar manna. Hún leiðir hann lengra og lýkur upp húsdyrum sem afþiljað var; þar sá hann á vinstri hönd borð og bekk. Í honum sat maður sem hafði yfir sér nokkuð líkt prestsmúk og hélt á kaleik með litlu víni í. Honum laut Hallgrímur, hinn gjörði eins, en báðir þögðu. Stúlkan leiddi [hann] enn um aðrar dyr og var þar eins borð og bekkur undir glugga, en til hægri handar rúm með fyrirdregnu sparlaki. En þá hann kom að rúminu sleppti stúlkan honum og þar nam hann staðar. Þá var rétt hönd fram undan rúmfötunum í hverja hann tók; heyrði hann þá stunur í rúminu. Stúlkan gekk fram og áður hún læsti sagðist Hallgrímur fara fyrir sólarlag. Þá lyfti Hallgrímur sparlakinu frá og sér hann þar liggur kvenmaður, en önnur liggur til fóta henni eða situr í hnipri; er sú alklædd og hélt á reifastranga. Hann lét sparlakið aftur falla fyrir rúmið; í því lét konan höndina fram af rúminu, en Hallgrímur tók hana handabandi, en leit eigi til hennar. Hann heyrði þá að stunið hækkaði mjög um litla stund og þagnaði síðan. Hann gætti þá aftur til rúmsins; sá hann þá að sú sem til fóta sat sókti barn og fylgju inn undir fötin. Konan sem barnið ól talaði til Hallgríms á þessa leið: „Vel gjörðir þú Hallgrímur að þú bargst lífi mínu, en hvert vilt þú nú heldur þiggja af mér muni fjár og þar skili svo með okkur eða koma hingað þá er þér þykir þér vera einhvers vant?“ Hallgrímur svarar: „Ég hugsa um ekkert og óska einkis nema að verða frí við það sem á mér liggur og að mér sækir, því meðan það er kemur mér allt annað að engu.“ Hún svaraði: „Von er þú farir hér um þeim orðum því hvor kveður þurftar sinnar þegar nauðþurft er, en guð veit hvort ég get orðið svo mikils megnandi. Sú sem í hlut á með þér um það efni mun ógreiðlega láta hluta sinn; tókstu þar af eða verra þá þú þverneitaðir eftirleitni hennar, því vel hefði þér dugað til hennar að fara, en líka má hins við geta að ei áttir þú þaðan burtfarar von.“ Hallgrímur spurði hana hvert því mundi ei með tímanum létta af sér er ásækti sig. Hún svaraði: „Því ætla ég fjærri fara og tel ég hitt vísara það muni heldur versna og það æ meir og meir með jafnlengd hverri, og ætlar ég þú þurfir að fara frá Guðnabakka og vera þaðan um þrjá vetur og mun þá duga ef þú vilt nokkuð til vinna.“ Hallgrímur spyr: „Hvað skal ég framar til vinna?“ Hún svarar: „Þú þarft að leyna svo nokkrum hlut þeim er yfir þig skal líða að engu mannsbarni segir þú meðan lifir.“ Hallgrímur svarar: „Það held ég mér verði þrautlítið eða hvernig fer ef ég bregð út af þessu?“ „Illa fer það,“ svaraði hún, „því sjálf er ég þá ei betur viðkomin en nú þykist þú vera, og hefgar það ei hamingju þína.“ „Eg óttast eigi að ég geti eigi þagað,“ sagði Hallgrímur, „því ég hefi ætíð þótt fámálugur, en ver fellur mér að þurfa að fara frá Guðnabakka. En hvað er það sem fyrir mig á að koma og má engum opinbera?“ Hún svaraði: „Ei er mér dælt að segja þér þenna hlut þegar í stað, en það eitt skaltu vita að nú þegar föstudagur er þarf að líða sá næsti. En á enum þriðja muntu þurfa að finna mig ef ég á að leggja nokkuð með þér og er erindi þitt þá það sem þú átt sífellt að leyna, og með því móti mun ég hætta til að hjálpa þér, en mjög mátt þú vera var um þig þar til þú kemur hingað aftur.“ Huldukonan spyr því næst Hallgrím hvert hann vili ei vera við skírn barnanna. „Það má ég ekki,“ segir Hallgrímur, „ég fékk eigi að fara fylgdarlaust nema ég lofaði að vera kominn heim um miðaftan.“ „Svo skal þá vera,“ mælti hún, „en má ég eigi nefna drengi mína eftir nöfnum ykkar bræðra?“[2] „Það mátt þú,“ svaraði Hallgrímur. „Vel er þetta mælt,“ svaraði hún, „og mundi ég vilja að þér yrði það launað.“ Nú voru börnin lauguð og búin til skírnar. Huldukonan bauð Hallgrími mat og þá hann það. Ei kvaðst hann þekkt hafa þann mat; hann sagði að það hefði verið líkast skánarkökum og þótti ágætur matur. Síðan leiddi hin hálfvaxna stúlka hann sömu leið og þau fóru inn og svo fór Hallgrímur heim og þykist hann hafa farið að öllu eins og huldukonan lagði fyrir hann, fann hana aftur á tilteknum tíma, en sagði engum frá viðskiptum þeirra.

Eftir þetta giftist Hallgrímur og dó sumarið 1833 og er eigi getið um að ófreskjan hafi fylgt honum eftir það að hann fann huldukonuna síðast.[3]

  1. Aðrir segja að Hallgrím hafi dreymt drauminn næstu þriðjudagsnótt eftir að hann skildi við stúlkuna og hún tók í fingurinn á honum. [Hdr.]
  2. Bróðir Hallgríms var Magnús Högnason í Hafnarfirði. [Hdr.]
  3. Þetta skeði 1822. [Hdr.]