Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Sagan af Einari konungi og hans afreksverkum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Einari konungi og hans afreksverkum

Eitt sinn var konungur í ríki sínu að nafni Jón; hann var stór og voldugur og réði yfir mörgum ríkjum og hafði marga aðra konunga sér undirgefna. Meðal annara barna hans er ekki eru við þessa sögu nefnd, átti hann dóttir er hét Goðrún; hún var kvenna fríðust og bezt að sér um alla hluti er einn kvenmann á þeim dögum kunni að prýða. Hrós hennar barst um allan heim og margir konungar og konungasynir, jarlar og aðrir stórhöfðingjar hófu bónorð til hennar, en hún vísaði þeim öllum með hæversku í burtu; fór so fram um hríð.

Í einu af ríkjum þeim er Jón konungur átti bjó hertogi nokkur er hét Vernharður; hann átti son er hét Einar. Einar var maður vænn og gjörvuglegur, vel limaður og andlitsfríður. Fáir vóru hans jafningjar að hreysti og íþróttum og þótti hann bera af öllum ungum mönnum er þá vóru á dögum, bæði að afli og fegurð. Einn dag kemur Vernharður hertogi að máli við son sinn og tekur so til orða: „Það vildi ég son minn að þú færir að leita þér kvonfangs. Ertu maður vel að viti og kurteisi búinn, og veit ég eina er þér vel mætti sóma og skarar fram úr öllum; væri það allgóður ráðahagur ef þér á litist.“ „Hvur er sú, faðir?“ svaraði Einar, „væri það sú er mér líkaði, yrði ég ekki til þess ófús.“ Hertoginn mælti: „Það er dóttir Jóns konungs er ræður yfir þessu landi. Hennar ættir þú að fá ef auðið væri, en mig uggir að Jóni konungi muni þykja mismunur á, þar þú ert ekki konungborinn; er konungur sá metorðagjarn og ekki fyrir að vera lægri en aðrir.“ Einar mælti: „Allvel lízt mér sjá kostur, faðir; hefi ég lengi það borið í huga mínum að Goðrún skyldi mín kona gjörast eða engin ella. Skulum við safna her og fara til Jóns konungs og bjóða honum annaðhvert að gefa mér meyjuna ella berjast.“ Svo var gjört sem Einar bauð, að óflýjandi her var safnað um allar áttir, og fóru þeir svo á fund Jóns konungs og settu tjöld sín fyrir framan borgarhliðin.

Svo er sagt að Jón konungur lætur illa í svefni eina nótt, og er hann vaknar skipar hann að kalla dóttur sína Goðrúnu. Þá hún kemur sezt konungurinn upp við herðadýnu og mælir svolátandi: „Þig hef ég hingað látið kalla dóttir, að ég vildi segja þér draum minn og biðja þig ráða. Ég þóttist staddur á víðum völlum og sá ég þar marga hrafna er flugu hingað; meðal þeirra var fálki stór er ásótti mig og þig sem mér þókti vera þar hjá mér, en það féll mér sárast að þú gafst þig við fálkanum og straukst honum, því þá var hann tamur sem lamb.“ Goðrún svarar: „Ekki get ég öðruvísi ráðið þann draum en að hér munu einhvurjir viðburðir fyrir koma sem þig og mig snertir; mun ég ekki so fráleit sumu sem þú.“ Lauk so tali þeirra og fór Jón konungur aftur að sofa, því hann var morgunsvæfur mjög. Skömmu eftir spyrst það til borgarinnar að Vernharður hertogi er þar kominn með óteljandi her og býður konungi bardaga ella gefa Einari syni sínum Goðrúnu konungsdóttur.

Þegar konungur heyrir þessi tíðindi fer hann til dóttur sinnar og tekur so til máls: „Þú munt heyrt hafa dóttir, að hingað er kominn Vernharður hertogi og Einar sonur hans með fjölda hermanna, og býður hann mér til orrustu, eða gefa sér handa Einari þig til ekta; lízt mér sá ráðahagur allósæmilegur fyrir þig konungborna, en hann ekki nema hertogason. Skal það aldrei að mínum vilja gjörast að Einar fái þín.“ Goðrún svarar: „Heimskulega þykir mér þér nú farast að tala, er þú vilt neita öðrum eins kappa og Einar er. Mun hann bráðlega sýna þér í tvo heimana ef þú ekki gjörir hans vilja.“ Konungur svaraði: „Brátt skal sá hundur sjá hvur ég er; hann skal ekki forgefins egna upp Jón konung er mestur er allra!“ Þá svarar Goðrún: „Brátt skal Einar sjá hvur ég er; hann skal ekki forgefins fara til mín, því hann er mestur allra!“ Skildu þau so talið og líkaði sitt hvurju.

Þar er nú til máls að taka að Vernharður hertogi sendir menn til konungs og býður honum eftir tveggja daga frest orrustu. Konungur játar því, sendir síðan um allt að safna her; fær hann mjög lítið á so stuttum tíma. Tekst síðan hin harðasta ásókn og gengu hvurutveggju vel fram. Var herliði Vernharðs hertoga skipt í þrjá flokka, var Einar fyrir þeim mesta, hertoginn fyrir öðrum og einn af þjónustumönnum Einars, er hét Árni, fyrir þeim þriðja. Það var hraustur maður og fjörugur, vel viti borinn og fríður mjög, lítill en fljótur á fæti, og nokkuð brúnlitaður í andliti. Hann hafði lengi verið kynntur við eina af æðstu hirðmeyjum Goðrúnar konungsdóttur er Margrét hét; hafði hann fest sér hana og var það þó móti vilja konungsdóttur, en af hvurju það gat verið, þorði enginn um að tala en þótt margir leiddu sér í grun, þeir sem þekktu konungsdóttur, af hvurju það var so móti hennar skapi. Árni barðist vel og drengilega; steypti hann sér í miðjar fylkingar og með Margréti í huganum hrópaði hann so undir tók í öllum klettum: „Sigur eða dauða!“

Vernharður hertogi gekk vel fram, þótt gamall væri; mættust þeir oft Jón konungur og hann, og hófu þá harða aðsókn. Einar var sem ljón um allt; hann hugði heldur að deyja en fá ekki frú Goðrúnu. Hann kemur þar að sem Jón konungur er fyrir og fer fljótt mót honum með spjót sitt og berjast þeir lengi; herti Jón konungur sig þá sem mest hann gat og kvað þetta þá Einar eitt sinn að hönum lagði:

„Fyrr skal eg dauður
falla til jarðar
frá ráðum og ríkjum
og rauðu gulli
en þú Goðrúnu
unga fáir
og skegg þitt tjargaða
skuli hún greiða!“

Þá svarar Einar, því hann var maður ekki hagmæltur: „Ekki kæri ég mig um hótanir yðar herra, og hef ég Goðrúnu ef ég vil.“ Í því leggur Einar spjóti sínu í gegnum Jón konung og hefur hann upp yfir fylkingarnar og fleygir honum út á völlinn. Þá hrópaði Vernharður og Einar siguróp, og var grið gefið þeim sem eftir var. Þar á eftir riðu þeir til borgarinnar og var fljótt við þeim tekið með fögnuði, gekk konungsdóttir móti þeim og tók til orða: „En þótt so hafi nú til tekizt að faðir minn sé til Valhallar farinn og sé þar efstur af öllum höfðingjum, þá vil ég ei samt móti yðar boðum gjöra, heldur gef ég mig og ríkið á vald yðvart, í því trausti að þér fyrir mér sjáið eftir því sem yður þykir sæma.“ Einar Vernharðsson svarar: „Virðing er það fyrir okkur móti slíkri jómfrú að taka sem þér eruð, og höfum við ekki betri kost að bjóða yður en að ég drekki brúðkaup mitt til yðar.“ „Ekki hefi ég því á móti,“ mælti Goðrún, „ef yður so þóknast, en þess vildi ég biðja yður að sæju þér um ríki mitt og þegna sem bezt þér gætuð.“ „Það skal gjört verða,“ svarar Einar, „og lýsir þetta dugnaði yðar og manngæzku.“

Frá því er að segja að Árni hermaður hertogasonar kemur að máli við unnustu sína Margréti og segir að hann vildi það að þau færu og giftu sig, þar eigi væri vert að draga það lengur. Margrét svaraði: „Það er víst að það er eftir mínum vilja, væri bezt að halda brúðkaup okkar undireins og Goðrúnar, en sjálfsagt mun vera að biðja þessa höfðingja um leyfi; ekki mun mega það annars.“ „Það skulum við gjöra,“ segir Árni, „því móti Einari geri ég ekki.“ „Eitt er það sem mig hryggir,“ segir Margrét, „ég hef tekið eftir að Goðrún hefur tekið upp á því að halda upp á þig heldur mikið; veit ég að af því mun hljótast eitthvað meira, því hún er kona stórráð og ágeng.“ „Ekki skaltu því kvíða,“ segir Árni, „ekki lízt mér neitt betur á Goðrúnu þó konungsdóttur sé heldur en þig!“ Hættu þau so tali þessu og fer Árni til Einars og biður hann um leyfi að mega slá saman brúðkaupinu. Einar lofar því ef það sé vilji festarmeyjar sinnar. En þegar Goðrún það heyrir aftekur hún það og segir það eigi hæfi saman; var þá brúðkaup Einars fyrst og var það haldið með mikilli prakt og prýði. Þótti þá öllum að hvurgi mundi finnast jafnfögur brúðhjón sem Einar Vernharðsson og Goðrún Jónsdóttir. Þar á eftir stóð brúðkaup Árna og Margrétar; leizt öllum vel á þau brúðhjón sem líka mátti. Fóru þau síðan burtu og gerði Einar konungur Árna að jarli yfir einu ríki sínu, en sjálfur settist hann að öllum ráðum með Goðrúnu drottningu.

Þegar kyrrðir voru á komnar í ríkjunum spyrjast þau tíðindi að ræningi nokkur fari yfir allt landið og drepi bæði menn og skepnur, eyðileggi allt og brenni; hann kalli sig Goðmund Vigfússon og fylgi honum kona sú er Málfríður heiti og sé í öngvu vægilegri. Einar konungur lætur stefna til þings og biður menn sína að færa sér ræningjahjúin annaðhvurt dauð eða lifandi. Þar á eftir spyrst það að Goðmundur er kominn þar nálægt og er engu betri en áður; er þá farið til móts við hann, og slær þar þegar í bardaga, því Goðmundur hafði nóg af ýmsu tæi; gekk Málfríður við hlið hans og skaut af boga so maður varð fyrir hvurri ör.

Árni jarl var þar kominn með sína sveit og skaut hann eitt sinn að Goðmundi so hann féll af baki; var hann þá handtekinn og settur í fjötur. Þegar Málfríður sér það leggur hún ör á streng og skýtur í gegnum Árna jarl, so hann var þegar dauður. Þótti öllum það, því hann var unntur mjög af öllum. Sá Margrét harla mikið eftir honum. Var hún hjá Goðrúnu drottningu er bardaginn stóð; bauð hún henni þar að vera þar til ráð hennar bættist.

Nú er Goðmundur og Málfríður flutt heim í fjötrum og skyldu þau að morgni líða straff sitt. Þá er morgna tók safnaðist múgur og margmenni um borgina; vóru þau síðan þangað flutt og létu þau líf sitt hreystilega.

Margrét drottning var hjá Goðrúnu drottningu í góðu yfirlæti og beið þess með þolinmæði að einhvur kæmi og beiddi hennar, en þegar er hún fór stundum að örvænta hughreysti Goðrún hana með því að nokkuð hefði hún mátt bíða og hefði þó farið sæmilega fyrir sér. Loksins kom þar konungur nokkur að nafni Sveinn og bað Margrétar; tók hún því sæmilega, en sagði þó að stór munur væri á Árna sáluga og þessum. Samt fór brúðkaup þeirra fram og flutti so Sveinn konungur Margréti drottningu heim til sín og fór hagur þeirra vel fram; áttu þau mörg börn. Einar konungur átti ótal börn við drottningu sinni; eru mestu konungaættir sem nú eru uppi frá þeim komnar, og mun minning þeirra uppi vera meðan veröldin stendur. Og ljúkum vér so þessari frásögu.