Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Sjóskrímsli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sjóskrímsli

Einu sinni var skagfirzkur maður að nafni Guðmundur[1] á gangi með sjó fram um kvöld. Fann hann þá rekabút dálítinn um eina og hálfa alin á lengd. Tók hann hann með sér og ætlaði í brenni þegar hann kæmi heim. Rétt þar á eftir varð fyrir honum í fjörunni sjóskrímsli eitt sem réðist þegar á hann. Guðmundur var heljarmenni og lét rekabútinn ganga á það; gat hann hvergi fest högg á því því að það var hnöttótt að ofan og þar að auki svo lint og slepjað að búturinn slapp út af því í hverju höggi. Þó lyktuðu svo leikar að hann gat komið skrímslinu fram í sjó og sjálfur dróst hann heim til sín með veikum burðum; vildi það honum til lífs að bærinn var rétt að kalla fast hjá sjónum. Hann lá rúmfastur í viku og komst svo á fætur, en aldrei varð hann jafngóður eftir þessa viðureign.

Einu sinni var maður á gangi með sjó fram um kvöld í myrkri og hafði öxi með sér. Mætti hann þá sjóskrímsli sem þegar réðist á hann. Hann hjó í það með öxinni svo það hrökklaðist fram í sjó, en dálítið blóð hraut á úlflið honum um leið og hann hjó og jafnskjótt hljóp kolbrandur í líkamann og dó hann af því eftir nokkra daga.

Ásmundur segir mér[2] að á þessari öld (19.) hafi sjóskrímsli komið á land á Eyri í Fjörðum.

Tveir menn voru að gjöra við fisk niður við sjó um kvöldtíma og heyrðu þrusk mikið fram í flæðarmálinu. Þegar þeir fóru að gá betur að var þetta einhver sjóskepna sem skrölti og glamraði í. Mennirnir mundu verða smeykir og hlupu í ósköpum heim að bæ, en svo var skrímslið frátt að þegar þeir voru að loka aftur bæjarhurðinni var skrímslið komið heim á hlaðið. Mennirnir fóru síðan inn og sögðu aðfarirnar. Fólkið varð hrætt sem von var og fór bráðlega að hypja sig niður í rúm nema þessir tveir; þeir vöktu um nóttina útbúnir með byssur og búlkara. Ekkert illt gjörði skrímslið samt af sér. Einu sinni kom það upp á glugga um nóttina. Um morguninn var það horfið og sást aldrei framar.

Einu sinni var vinnumaður í Vík í Héðinsfirði. Hann var mesta heljarmenni. Það var beitarhúsamaður og var ætíð vanur að ganga við stóran staf. Eitt kvöld kom hann ekki heim eins og hann var vanur og leið svo til fjóstíma. Þá átti að fara að leita að honum, en þá kom hann þjótandi inn í baðstofuna og spurði því að ekki væri búið að kveikja; en þar eð ljós var í baðstofunni undraðist fólkið þetta; einnig sýndist því hann eitthvað undarlegur. Seinna sagði hann að þegar hann hefði verið kominn á leið heimleiðis hefði komið skrímsli á móti sér. Þegar það kom að honum sagðist hann hafa lagt stafinn í það og brotið hann, en skrímslið hefði ekkert bilazt við það. Sagðist hann þá ekki hafa séð annað ráð vænna en að hörfa aftur til beitarhúsanna. Þar sagðist hann hafa náð rafti sem hann hefði svo danglað á skrímslinu með þangað til það hefði hörfað undan og fram í sjó. Var hann orðinn svo truflaður þegar hann komst heim að hann sá ekki logandi ljósið í baðstofunni.

Einu sinni var bóndi á Þönglaskála í Skagafirði. Hann var smiður dágóður. Einu sinni um kvöld stóð svo á að hann var einn heima að karlmönnum til; auk hans voru heima kona hans og kerling ein. Bónda vantaði gyrði á kollu sem hann var að smíða, en hann átti nóg gyrði niðri í búð niður við sjó. Fer hann því á stað niður eftir og ætlar að sækja gyrði. Hann var nú búinn að vera dálitla stund í burtu svo að konum fór að lengja eftir honum. Fóru þær svo loks niður eftir með ljós og ætluðu að grennslast eftir hvernig stæði á um hagi hans. Þegar þær komu niður að búðardyrunum stóðu þær galopnar, en frammi fyrir dyrunum var einhver væta þykk nokkuð að þeim virtist og héldu þær að það væri blóð. Nú fóru þær inn í búðina og kveiktu ljósið. Lá þá bóndinn meðvitundarlaus á búðargólfinu. Þær fóru svo að stumra yfir honum og raknaði hann við eftir nokkrar tilraunir. Sagði hann þeim þá að þegar hann hefði verið kominn inn í búðina hefði einhver árinn sjálfur komið í dyrnar, en svo hefði það verið stórt að það hefði ekki komizt inn. Sagðist hann þá hafa tekið hákarlaskálm sem þar lá í búðinni og rekið í kvikindið; hefði það þá rekið upp það argvítugt öskur að hann hefði liðið í ómegin. Blóðið sem var fyrir dyrunum var úr þessu skrímsli og blóðferilinn mátti rekja til sjávar.

Einu sinni var bóndi á Þönglaskála sem hét Sigurður. Hann ætlaði einu sinni í hákarlalegu og gjörði boð hásetum sínum að þeir kæmu til sjóvar ákveðinn dag. Þennan tiltekna dag var bóndi niðri við sjó eitthvað að gjöra við veiðarfæri og laga til í bátnum. Þegar hann var búinn að þessu og ætlaði að halda heim var farið að rökkva. Þegar hann ætlaði af stað sá hann hvíta skepnu koma upp úr sjónum og stefna á sig. Þóttist hann vera fullviss um að þetta væri sjóskrímsli. Fór hann þá inn í búðina og skellti aftur hurðinni. Skrímslið kom á eftir og vildi komast inn, en bóndi lá á hurðinni að innan. Loks gat hann náð í hákarlaskálm og rak hana út í gegnum rifu sem var á hurðinni, í skrímslið; hrökk það þá frá, en samt var það á flakki þar úti fyrir alla nóttina og ekki þorði bóndinn út fyr en bjart var orðið af degi daginn eftir. Var þá skrímslið farið. Ekkert blóð sást þar úti fyrir, en skálmin var orðin kolsvört. Þegar hann kom heim þóttist fólkið hafa heimt hann úr helju. Enginn hafði þorað að leita hans um nóttina sökum þess að einlægt hafði heyrzt skrölt niður frá um nóttina.

  1. Guðmundur þessi var uppi til skamms tíma og muna Óslandshlíðingar vel eftir honum 1886. [Hdr.]
  2. Þ. e. Guðmundi Davíðssyni.