Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Snorri á Húsafelli og sendingin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Snorri á Húsafelli og sendingin

Síra Snorri var hinn seinasti maður er hafði seið hér á landi svo menn viti.

Þegar síra Snorri flutti frá Húsafelli fór hann á Strandir. Hann kom sér heldur illa við Ströndunga. Þeir voru kunnáttumenn miklir og hugðust að gjöra presti einhverjar glettingar til þess að fæla hann burtu eða jafnvel drepa hann. Eitt kvöld þegar prestur var heima lét hann kveikja á mörgum ljósum í baðstofunni svo hvergi bar skugga á nema í einu horni; þar var myrkt og þar lét prestur setja stól. Svo lét hann og bera inn messuskrúða sinn. Þegar tók að líða á kvöldið var barið eitt högg á dyr. Prestur segir næstyngstu dóttur sinni að fara til dyra; hún gjörir það, fer út, en sér engan. Fer hún svo inn aftur. Þegar dálítil stund er liðin er aftur barið eitt högg. Prestur segir sömu dóttur sinni að fara fram; hún fer, en allt fer á sömu leið. Í þriðja sinni er barið eitt högg. Þá segir prestur við hina sömu dóttur sína sem áður hafði farið til dyranna: „Nú skaltu fara fram og ef þú sérð engan skaltu segja: ,Ef þú ert fjandi þá farðu til andskotans, en sértu maður þá komdu inn með mér.' Og ef þú sérð þá mann sem mér þykir ekki ólíklegt skaltu koma með hann inn. Hann mun vilja láta þig ganga á undan sér, en það skaltu varast og skaltu ganga á eftir honum.“ Fór nú stúlkan fram og sá engan fremur en áður. Hafði hún þá hinn sama formála sem faðir hennar hafði sagt henni. Sá hún þá mann í skinnklæðum rennvotum; lak niður úr hverri spjör. Hún spurði hann hvert erindi hann hefði; hann sagðist vera sendur að drepa föður hennar. Hún sagði honum þá að koma inn. Ojá, hinn var til með það, en prestsdóttir sagði að hann yrði á undan að fara og varð svo að vera. Þegar draugsi kom inn þókti honum heldur bjart þar sem ljós var í hverri krá og hrökklaðist hann í hornið sem ljóslaust var. Þá kom síra Snorri til hans með kaleik í hendi; var kaleikurinn fylltur á barma með vígðu messuvíni. Staðnæmist hann frammi fyrir draugsa og spyr hvert erindi hans sé. „Sendur var ég að drepa þig,“ var svarið. „Hver sendi þig?“ „Ströndungar!“ „Ertu úr kirkjugarði?“ „Nei.“ „Hvaðan þá?“ „Þeir gjörðu galdraveður og drápu sex á bát.“ „Ertu einn af þeim?“ „Já.“ „Varstu dauður?“ „Nei.“ „Viltu ekki drekka af kaleiknum?“ „Nei.“ „Þú skalt þá samt drekka!“ segir prestur og styður hendi á sendinguna svo hún datt ofan af stólnum og ofan á gólf; þar hellir prestur ofan í hana úr kaleiknum. Leið hún þá í öngvit.

Þegar hún raknaði við aftur var hjartað farið að slá; lifði maðurinn nokkra stund eftir þetta og fékk heilagt sakramenti og dó síðan. En aðrir segja að maðurinn hafi orðið heill heilsu aftur.