Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Svipur Tómasar á Hrauni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Svipur Tómasar á Hrauni

Þegar Markús Ívarsson var í Hallfríðarstaðakoti var þar einnig stúlka sem Vigdís hét. Hún átti fyrir bróður Tómás nokkurn er þá var á Hrauni í Yxnadal. Þorlákur hét faðir þeirra. Eitt kvöld á vökunni gekk Magnús út. Hríð var úti svo bærinn var lokaður. Þegar Markús tók opna bæjarhurðina sá hann hvar Tómás bróðir Vigdísar stóð sunnan við bæjardyrnar. Veifaði hann handleggjunum til og frá eins og þeir væru brotnir. Markús gaf sig ekki að því, heldur fór út fyrir bæ og gjörði þar þarfir sínar; en þegar hann kom aftur að bæjardyrunum sá hann engan. Hann fór nú inn og spurði hvert nokkur hefði komið, og þegar því var neitað sagði hann fólkinu frá manninum sem hann hafði séð án þess þó að segja nafn mannsins því að hann vildi ekki láta Vigdísi vita að það hefði verið bróðir hennar. Skömmu seinna fréttist að þennan sama dag hefði tveir menn frá Hrauni hrapað í kindaleit. Annar þeirra var Tómas bróðir Vigdísar og var hann handleggsbrotinn á báðum handleggjum.