Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Torfi á Klúkum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Torfi á Klúkum í Eyjafirði sem um er getið í þjóðsögunum var margfróður mjög. Hann sýndi mönnum þjóf er frá þeim hafði verið stolið. Hefi ég aldrei heyrt að honum hafi mistekizt það nema einu sinni því þá sá hann að vísu manninn, en í annað skipti sem hann reyndi til við hann var hann með hettu fletta niður fyrir augu og munn, en í annað skiptið sá hann aðeins í beran rassinn á honum.

Ekki hefi ég heyrt um að hann hafi átt við reimleika nema einu sinni.

Einu sinni dó bóndinn á Geldingsá, en svo stóð á að hann hafði ættarfylgju. Nú þegar hann var dáinn kom fylgjan sem var stelpa til elztu dóttur hans og bað hana ásjár, nl. tók að fylgja henni og ásækja hana svo hún hafði engin ráð nema að fara til Torfa á Klúkum. Torfi ráðlagði henni að flytja fram í Eyjafjörð og giftast aldrei; þá myndi skottan ekki fá gjört henni mein, en annars myndi ekki hlíta; auk þess lét hann hana brúka varnarmeðöl á móti skottu. Stúlkan – sem hét Kristrún – var nokkur ár ógift fram í Firði og varð þá aldrei skottu vör, en að þeim liðnum braut hún bæði boðorð Torfa í einu því að hún giftist manni á Geldingsá og settist þar að. Óðara lét skotta til sín taka og gjörði Kristrúnu vitlausa og var hún svo alla ævi síðan.