Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Víti fyrir þungaðar konur og fleira

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Vanfær kona verður að varast að drekka af því vatni sem jórturskepnur hafa af drukkið; því þá jótrar barnið þá það verður stálpað.

Þunguð kona verður að varast að borða gómfillu úr nauta- og sauðarhöfðum, og öllum skepnum; af því verður barnið holgóma.

Ekki má ólétt kona ganga inn í eður undir fullreist hús óþakið; því þá verður að reisa spýtur í húslögun yfir konunni so hún geti fætt, eður bera hana undir nýreist hús.

Vanfær kona má ekki borða selsvið (það er: haus og hreifa); þá verður selshöfuð og -höndur á barninu.

Ekki má þunguð kona tvíbrjóta eður vefja klút um háls sér; því þá á að verða vafinn naflastrengurinn um háls barninu og hindra fæðinguna eður kyrkja barnið.

Vanfærar konur mega ekki horfa mikið á blikandi stjörnur eður norðurljós á flugi [og ekki í rennandi vatn]; því börnin verða þá með tinandi augum.

Ekki má ganga á þrúgum inn fyri bæjardyrastaf þar sem þunguð kona er í bæ ellegar hvort annað hús þar sem þær fyri eru; þá verða börnin með kringlóttum skófæti því líkum sem þrúga væri.

Ekki mega menn ganga inn fyri dyr á því húsi sem vanfærar konur eru í, á mannbroddum eður fjallajárnum, heldur leysa þau af sér fyri utan dyr; því annars verður fæturnar á börnunum löguð eins og járnin.

Ekki má láta konur leggjast á rjúpnafiðursængur þá þær skulu fæða; því þá verður fæðingin mjög treg ella ómöguleg nema skipt sé um sængur.

Það sem fullorðnir og börn eiga að varast:

Enginn maður má drekka af potts- eður ketilbarmi heldur á ætíð að hella af þeim í eitthvað; því maður á [þá] ekki að geta dáið nema potti sé hvolft ofan yfir hann.

Ekki mega menn sjálfir eður leyfa börnum að éta mörk af kindarhausum heldur á að fleygja þeim; því ef svo er ei gjört verða menn sauðaþjófar.

Ekki mega menn ganga frá ljá í orfi óbrýndum; því annars kemur kölski og skítur á eggina; aðrir segja: dragi brýnið fyri eggina so bitlaust verði og bíti ekki jafnvel það dengsli út.

Aldrei má sauma utan um dauðan mann hjúp nema aftur á bak eður upp í höndina; ekki má heldur bíta frá nálinni, heldur á að slíta eða klippa nálina frá.

Það er í gamallri frásögn að maður hafi eitt sinn saumað um kellingu sem dauð var og gáði ekki reglunnar sem fyr segir. Kelling var ill í skapi og forn þá hún lifði. Kelling gekk aftur meðan bóndi var að sauma náklæðin um hana. Þá sagði kelling við bónda: „Þú ert ekki búinn að bíta frá nálinni, bölvaður!“ Bóndi lét sér ei bilt við verða og stakk henni á kaf í kellinguna. Svo var hún borin fram. Þá sagði kelling: „Þar bera þeir mig út, en illa er við nálina skilið og af hennar völdum má ég kjur liggja.“ Ekki bar heldur á fótaferð kellingar eður hún talaði meir.

Ekki mega menn reiða eður bera lík um bæjarhlöð heldur bak við bæi eður langt frá bæjardyrum; því sá dauði vill þá einhvörn feigan á þeim bæ sem hann er fluttur um hlaðið á og rætist það altíð.

Altíð skal snúast með lík þrjá hringa fyrir þeim húsdyrum sem sá dauði liggur í á þeim bæ sem hann hefur dáið til að villa um fyri honum svo hann rati ekki sömu leið sem hann er fluttur og verði svo áttavilltur.

Eins á að gjöra þegar lík eru borin úr kirkju frammi fyrir kirkjudyrum, að snúa þeim þrjá hringa og bera þau svo einn hring um kirkjuna. Þetta er allt gjört svo að svipir hins dauða villist og komist ekki á burt úr kirkjugarðinum.

Ekki mega menn láta lok yfir nýsmíðaða líkkistu; það þurfa allir líkkistusmiðir að varast því þá fyrstu nótt eftir að kistan er albúin kemur sá dauði sem í kistuna á að fara, skoðar hana, fer ofan í hana og ber sig við hana ef hún er opin; fer svo ánægður burtu. En þegar þær eru lokaðar aftur strax hefur oft heyrzt skrölt og áþreifingar við kistuna lengi nætur og hafa menn þegar það heyrt hafa reynt að opna kistuna og hefur þá ekkert heyrzt framar. Aldrei ber á þessu nema þá fyrstu nótt eftir að kistan er fullgerð.

Þeir sem jafnaðarlega sækja illa að þegar þeir koma á aðra bæi annaðhvert að mönnum eður skepnum eiga að snúa sér þrisvar í kring þá þeir koma í land á þeim bæ sem þeir ætla að koma að. Líka verður að varast að taka þeim mönnum vel þegar þeir hafa illa að sókt; við það fyrtast fylgjurnar og sækja þá betur að aftur.

Ekki mega menn rétta yfir róðrarbáta eður skip sem verið er að setja fram til fiskiveiða heldur á að bera það aftur eður fram fyri skipið. Ekki má heldur kasta fiski yfir þvert skip þegar af er kastað heldur á hver að kasta út á sitt borð eður beint fram úr stafni; allt þetta veldur aflaleysi og óhöppum.

Formaður skal ætíð snúa skipi sínu sólarsinnis þá frá fjöru rær; ella veldur það óhöppum og slysum.

Forðast þurfa menn að hirða seinasta heyrak þegar hirt er tún og engi á sumrum, eins hvenær sem alhirt er og eru þau rök kölluð englarök eður engladreifar; því þá verður allt það heimflutta hey ódrýgra og grasvöxtur minni árið eftir.

[Hvísla skal í eyra á hesti sem lík skal bera þessum orðum: „Þú átt að bera lík í dag.“ Annars verður hesturinn vitlaus og brýtur allt af sér af hræðslu.]